Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skýrslan ónákvæm en tengist Samherja ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samherji segir skýrslu norska fjármálaeftirlitsins ónákvæma og gagnrýnir að ekki hafi verið haft samband við fyrirtækið við gerð hennar. Félagið tekur hins vegar einnig fram að efni skýrslunnar sé Samherja óviðkomandi og lúti eingöngu að málefnum norska bankans DNB.

Norska fjármálaeftirlitið fann alvarlegar brotalamir í peningaþvættisvörnum norska DNB bankans og sektaði hann sem nemur sex milljörðum íslenskra króna. Sektin þykir mjög há á norska vísu en bankinn ákvað eigi að síður að una sektinni.

Nokkur félög tengd Samherja voru í viðskiptum við DNB þar til norski bankinn lokaði á viðskipti við þau árið 2019. Fjármálaeftirlitið sá ástæðu til að gera sérstaka skýrslu um viðskipti þessara félaga og var niðurstaðan sú að eftirlitsskyldu með þessum félögum hefði ekki verið sinnt, jafnvel þótt þau hefðu verið í áhættuhópi.

Snýst um DNB en ekki Samherja

Samherji fjallar á heimasíðu sinni um sekt norska bankans og segir að fyrirtækið eigi enga aðild að málinu. Þótt fjármálaeftirlitið hafi gefið út skýrslu sem að nafninu til fjalli um samband DNB við Samherja, þá snúist meginefni skýrslunnar um starfshætti DNB en ekki Samherja. Þrátt fyrir það gagnrýnir Samherji að fyrirtækið hafi ekki fengið að koma á framfæri athugasemdum til norska fjármálaeftirlitsins. Fyrir vikið sé skýrslan ónákvæm og hafi leitt til villandi fréttaflutningins. auk þess sem óheppilegt sé að skýrsla sem hefur að geyma trúnaðarupplýsingar sé birt opinberlega.