Hádegisfréttir: Óbreytt í viku en tíðinda að vænta

04.05.2021 - 12:07
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja núverandi reglugerð um sóttvarnir um eina viku og eru samkomutakmarkanir því óbreyttar. Ráðherra reiknar með miklum afléttingum í næstu viku.

Fjórðungur landsmanna telur að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld geri of lítið til að bregðast við COVID-19, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Færri hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum faraldursins en áður.

Samherji gagnrýnir að norska fjármálaeftirlitið hafi ekki leitað álits fyrirtækisins við gerð skýrslu um viðskipti norska bankans við Samherjafélög. Fyrir vikið sé skýrslan, sem fyrirtækið segir á engan hátt tengjast Samherja, ónákvæm.   

COVID-19 smit á Indlandi eru komin yfir tuttugu milljónir. Skortur er á bóluefnum, súrefni og öðrum hjálpargögnum. Stjórnvöld vonast þó til þess að ástandið fari batnandi úr þessu. 

Nýtt hættumat fyrir eldgosið við Fagradalsfjall tekur mið af vindi á svæðinu, og hversu langt frá gígnum svokallaðar bombur geta skotist.

Amazon hefur aldrei selt meiri vöru og þjónustu í Evrópu en í fyrra. Þrátt fyrir það var fyrirtækið rekið með tapi samkvæmt ársreikningi. Það hefur verið gagnrýnt fyrir að koma sér undan skattgreiðslum.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV