Gætum fengið hraðar tilslakanir í bakið – Betra að bíða

04.05.2021 - 21:08
Enn kann að vera þó nokkuð um kórónuveirusmit í samfélaginu og því er skynsamlegast að bíða með að slaka á samkomutakmörkunum. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í Kastljósi í kvöld. Fyrr í dag var tilkynnt að sóttvarnareglur yrðu óbreyttar í eina viku en núgildandi sóttvarnareglugerð fellur úr gildi á morgun.

„Við erum vissulega búin að bólusetja áhættuhópa en ég minni á að þetta veiruafbrigði sem er að ganga hefur valdið meiri sýkingum hjá yngra fólki. Við sjáum það í Skandínavíu og öðrum löndum sem eru á svipuðu róli og við með bólusetningar að þar er mjög mikið af veiku yngra fólki sem þarf að leggjast inn á sjúkrahús. Við gætum fengið allt í bakið ef við myndum lenda í þvi sama,“ sagði hann.

Hann sagðist þó vonast til að hægt yrði að slaka á sóttvarnareglum sem fyrst og sumarið yrði ágætt. Hann vildi ekki kveða upp úr með hvort þjóðhátíð yrði haldin í Vestmannaeyjum.
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV