Dýrin í Kjarnaskógi ekki lengur vinir

04.05.2021 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Hlið, sem setja á upp við fjölfarið útivistarsvæði á Akureyri, hafa valdið deilum milli hestamanna og annarra sem nýta svæðið. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga óttast að hliðin geti valdið slysum.

Umdeild færsla á Facebook

Skógræktarfélag Eyfirðinga, sem sér um rekstur útivistarsvæðisins í Kjarnaskógi á Akureyri, sendi frá sér tilkynningu á Facebook um helgina. Þar mótmælir félagið kröftuglega áformum bæjaryfirvalda um að setja upp hlið við fjölfarinn göngustíg. Hliðin, sem ætluð eru til að auðvelda rekstur á hrossastóði, eru sögð skapa úlfúð og árekstra milli hópa og er þeim líkt við vopnaleitarhliðin á Keflavíkurflugvelli. Færslan hefur vakið mikil viðbrögð og sitt sýnist hverjum.

Óttast að hliðið valdi úlfúð

Ingólfur Jóhannesson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins óttast að hliðin geti skapað mikla hættu. „Við teljum að þessi aðgerð, sem er fyrirhuguð hér, komi til með að elta okkur kannski áfram um ókomin ár. Ef þú ert að búa til úlfúð til lengri tíma, þá ertu ekki á réttri leið,“ segir Ingólfur.

Hann segir að ef nota eigi svæðið til að reka hrossastóð þurfi að setja skýrar reglur til að koma í veg fyrir slys. „Að reka hrossastóð í gegnum þéttbýli er hvergi leyft á byggðu bóli á Íslandi nema hér. Það getur mögulega farið saman ef um það eru reglur sem er fylgt.“

Hefur þú áhyggjur af því að ef þetta fer í gegn að það geti valdið slysahættu?

„Ef ekki verður farið í aðgerðir á aðliggjandi stígum þá mun það klárlega gera það því það hafa orðið slys út af rennsli hér í brekkum þar sem fólk hefur slasast, alvarlega.“

Vongóður um að sátt náist

Þrátt fyrir að þetta sé mikið hitamál er Ingólfur vongóður um að sátt náist. „Ég held það hafi verið hann Bangsi bestaskinn sem las einhvern tímann upp lög og þau voru eitthvað á það leið að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir. Ég held að það hafi verið lesin upp vitlausari lög einhvern tímann.“