Bjartmar, Selma Björns, Krampar og Offbít með nýtt

Mynd: Hit It / Countess Malice

Bjartmar, Selma Björns, Krampar og Offbít með nýtt

04.05.2021 - 18:30

Höfundar

Það er allur skalinn í Undiröldunni að þessu sinni og nýtt rokk í boði frá Bjartmari og bergrisunum og Krömpum, síðan er það köntrí og sveitatónlist frá Selmu Björns, Bjarna Ara og Kahnanum og svo endað á balli með BSÍ, Hermigervli, Offbít og Countess Malice.

Bjartmar og bergrisarnir - Á ekki eitt einasta orð

Bjartmar Guðlaugsson þarf ekki að kynna en hljómsveit hans Bergrisarnir er skipuð þeim Bassa Ólafssyni á trommur, Birki Rafni Gíslasyni á gítara, Júlíusi Guðmundssyni á bassa og Halldóri Smárasyni á hammond-orgel. Nú hafa þeir félagar sent frá sér lagið - Á ekki eitt einasta orð sem er tekið af væntanlegri plötu með sama nafni.


Krampar - Death Is Not Scary, Dying Is

Hljómsveitin Krampar hefur sent frá sér sitt fyrsta lag sem heitir Death Is Not Scary, Dying Is, og það er á rokkuðu nótunum. Krampar er skipuð laga- og textasmiðnum Magnúsi Þór Magnússyni sem syngur og spilar á gítar, Luis Diogo spilar líka á gítar, Oddur Sigmundsson á bassa og Svanberg Þór Sigurðsson trommar.


Selma Björnsdóttir - Undir stjörnum

Lagið Undir stjörnum er það fyrsta sem Selma Björnsdóttir hefur samið og sent frá sér í áratug. Lagið er samið fyrir Gleðileikinn - Bíddu bara sem verður frumsýndur í Gaflaraleikhúsinu í haust. Verkið er samið af þeim Björk Jakobsdóttur, Selmu Björnsdóttur og Sölku Sól sem gera líka tónlistina ásamt Karli Olgeirssyni.


Bjarni Arason - Þegar sólin sýnir lit

Bjarni Arason hefur sent frá sér lagið - Þegar sólin sýnir lit sem Bjarni samdi í febrúar á þessu ári. Upptökur fóru síðan fram í mars og apríl og Bjarni fékk dætur sínar til syngja fyrir sig bakraddir en Kristinn G. Bjarnason samdi textann.


Kahnin - FAumm

Guðmundur Jens Guðmundsson sem kallar sig Kahnan spilar á öll hljóðfæri í sínu nýjasta lagi - FAumm, auk þess að stjórna upptökum. Lagið er hljóðblandað af Philip Larsen, Grammy-verðlaunahafa með ansi langa ferilskrá sem inniheldur meðal annars; B52s, Lady Gaga og Erasure.


BSÍ - Vesturbæjar Beach (Hermigervill remix)

Hljómsveitin BSÍ gaf út nýjasta lag sitt, Vesturbæjar Beach, á sumardaginn fyrsta og standa við stóru orðinn um pottþétt sumarpartý með endurhljóðblöndun Hermigervils.


Offbít - Stofustáss

Offbít hefur sent frá sér lagið Stofustáss en sveitina skipa þeir Sigurður Kristinn Sigurðsson taktsmiður og Heimir Rappari Björnsson. Eftir að Sigurður flutti heim frá London tóku þeir Heimir upp þráðinn aftur frá því í Skyttunum og tóku upp nýja plötu. Platan sem lagið er á heitir Heimagerður veruleiki og er mestmegnis unnin af þeim tveimur.


Countess Malice ft Lyzza - Hit It

Dýrfinna Benita er rappari sem hefur komið fram undir alter egóinu Countess Malaise. Þann þrítugasta apríl kom út nýtt lag með Countess Malaise sem nefnist Hit It og kemur brasilíska tónlistarkonan LYZZA fram í laginu ásamt henni.