„Þetta er náttúrulega fáránleg hugmynd“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta er náttúrulega fáránleg hugmynd“

03.05.2021 - 10:24

Höfundar

Óvelkomnum hugsunum er boðið í heimsókn á listasýningunni Plægðu í því í Gallerý Port. Á sýningunni má sjá kunnugleg stef í nýjum fötum sem listamennirnir Svavar Pétur Eysteinsson og Skarphéðinn Bergþóruson hafa skapað að undanförnu.

„Þetta fjallar um hugmyndir sem hafa kannski verið gerðar áður og ásækja mann,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson um sýninguna Plægðu í því. „Þegar við Skarpi fórum að setjast niður að ræða þessa sýningu fyrir nokkrum mánuðum síðan, datt okkur í hug að við ættum kannski bara að gera eitthvað við þessar hugmyndir.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þegar Skarphéðinn sér skammstöfunina „nkl“ hugsar hann um Halldór Laxness.

nkl = hkl

Meðal efniviðar sem unnið er út frá á sýningunni eru ritsöfn Halldórs Laxness. „Við Svavar sem sagt bonduðum á þessum óvelkomnu hugsunum og þá kom hugmynd: alltaf þegar ég sá „nkl“ skammstöfunina fyrir nákvæmlega hugsaði ég alltaf um „hkl“ fyrir Halldór Kiljan Laxness. Það var búið að ásækja mig heillengi og orðið svona þráhyggja þegar ég sá það, sem blessunarlega gerðist ekki oft en nógu oft til að það truflaði mig og þá kom þessi hugmynd að vinna með það listrænt, þessa og enn fleiri vísanir í Halldór Laxness og ritsafnið hans,“ segir Skarphéðinn Bergþóruson.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svavar Pétur sýnir myndir sem hann tók af öllum N1 bensístöðvum landsins.

Enn ein

Svavar sýnir þekkta áningarstaði á Íslandi frá nýjum vinkli á sýningunni. „Ef þú endurvinnur hugmynd, gerir hugmynd sem er svipuð og einhver annar hefur gert þá ertu alltaf að bæta einhverju við, þú ert alltaf að búa til eitthvað nýtt sjónarhorn á hana. Sem dæmi þá er ég með verk á þessari sýningu sem er undir miklum áhrifum frá mörgum öðrum verkum. Það fjallar um bensínstöðvar og listamenn hafa fjallað um bensínstöðvar áður en ég sem sagt var með einnota myndavél á ferð minni um landið í vetur og tók mynd af öllum N1 stöðvum á landinu. Þetta er sería af myndum, 27 N1 stöðvar út um allt land og er náttúrulega undir mjög sterkum áhrifum til dæmis frá verki Ed Ruscha og gerði mjög fræga bók á 6. eða 7. áratugnum sem heitir Twentysix Gasoline Stations. Ég sumsé bæti um betur  og geri 27 og þessi sería heitir Enn ein og þetta er náttúrulega fáránleg hugmynd.“

Plægðu í því stendur til 6. maí. Nánari upplýsingar má finna hér.

Tengdar fréttir

Innlent

Slangurorðabókin gullnáma í textasmíð