Tekist á um frumvarp um kynjahlutföll

03.05.2021 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Hér er ekki verið að innleiða skyldur og hér er ekki verið að binda hendur þingflokka. Hér er einfaldlega verið að biðja og biðla til þingsins að taka þátt í nútímanum og að virða kynjasjónarmið,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í dag um framvarp forsætisnefndar um jafnt hlutfall kynja í nefndum Alþingis.

Tekist var á um frumvarpið á Alþingi í dag. Markmið þess er að gera breytingar á þingsköpum svo að skylt verði að líta til kynjasjónarmiða við kosningu varaforseta Alþingis, skiptingu nefndasæta og við val eða kosningu fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Alþingis og þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast.

„Það kemur ekki í veg fyrir kosningu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40 prósent,“ segir í frumvarpinu.

„Við erum ekki á þeim stað að tíminn einn eða biðin ein muni skila því að jafnrétti kynjanna sé og verði niðurstaðan hér á landi. Við þurfum að halda áfram og það hefur verið löggjafinn og markvissar aðgerðir sem hafa skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag en ekki tíminn einn,“ sagði Þorbjörg á Alþingi í dag.

„Mér finnst skipta máli hver staðan er á Alþingi Íslendinga og hefur raunar alltaf verið. Konur hafa alltaf verið í minnihluta þingmanna. Við upplifðum það í kosningunum 2017 að það var fækkun um tíu prósent. Ég held að það sé ekki gagnlegt og ekki raunsætt að tala um það sem tímabundið ástand þegar saga þingsins er eins og hún er,“ sagði hún.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem mælti fyrir frumvarpinu, tók í sama streng. „Það er áhugavert að sjá að áratugum saman ná kynjahlutföllin ekki að rétta sig af,“ sagði hún. „Þetta eru tilmæli en það er samt verið að beita ákveðinni vísireglu. Það er ekki hægt að skikka neinn til þess að skipa svona í nefndir en þetta er skref í rétta átt,“ sagði Bjarkey.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi frumvarpið hins vegar harðlega og sagðist nánast vera kominn að fótum fram við að hlusta á ræður stuðningsfólks frumvarpsins.

„Það kann að vera að ég sé steintröll. Það kann að vera og ég vil ekki útiloka það en fyrir mér er löggjöf til að kveða á um réttindi og skyldur okkar og leikreglur sem við eigum að fara eftir. Löggjöf er ekki eitthvað til að sýnast,“ sagði Brynjar.

„Ég er maður fjölbreytileikans en snýst þetta allt um einhver kyn? Erum við alveg hætt að vera einstaklingar? Það eru mörg önnur sjónarmið uppi heldur en kyn. Það getur verið aldur, fyrri störf, reynsla og þekking. Þetta gerum við á sama tíma og við eigum líka öll að vera kynlaus og mörg kyn. Hvert er þingheimur að fara?“ sagði Brynjar.

Annarri umræðu um frumvarpið lauk síðdegis en atkvæðagreiðslu um það var frestað.