Sóknarnefndarformaður ósammála skrifum kantors

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Sóknarnefndarformaður ósammála skrifum kantors

03.05.2021 - 08:10

Höfundar

Formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju gerir athugasemdir við tölvupóst sem Hörður Áskelsson, fráfarandi kantor Hallgrímskirkju, sendi á Listvini Hallgrímskirkju í fyrradag. Í bréfinu segir Hörður að forsvarsmenn kirkjunnar hafi kosið að víkja honum úr starfi. Formaðurinn segir þetta ekki rétt. Hörður hafi hafnað heiðurssamningnum og sjálfur lagt fram ósk um stafslok.

Þetta kemur fram í pistli Einars Karls Haraldssonar, formanns sóknarnefndarinnar á Facebook-síðu Hallgrímskirkju í gær. Hörður Áskelsson, sem gegnt hefur stöðu kantors og organista í hátt í 40 ár, sendi Listvinum Hallgrímskirkju tölvupóst í fyrradag þar sem hann sagði að forsvarsfólk Hallgrímskirkju hefði kosið að víkja honum úr starfi kantors með starfslokasamningi sem hann geti ekki annað en sætt sig við.

Einar segir að Hörður hafi sjálfur lagt starfslokasamninginn fram eftir að hann hafnaði svokölluðum heiðurssamningi frá Hallgrímskirkju. Í janúar hefði Hörður samþykkt að lögmaður kirkjunnar og formaður FÍH ynnu að gerð hans. 

„Síðastliðin þrjú ár hefur HÁ [innskot fréttamanns: Hörður Áskelsson] leikið mjög takmarkað á orgel í Hallgrímskirkju. Framkvæmdastjórn sóknarnefndar hefur ítrekað gengið eftir því hvað við tæki þegar níu mánaða tímabili HÁ á listamannalaunum lyki, enda nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma og binda endi á þá óvissu sem hefur verið ríkjandi varðandi organistastörfin. Í yfirstandandi fjárhagsþrengingum kirkjunnar ákvað sóknarnefnd að einungis verði í heild um það bil eitt stöðugildi organista við Hallgrímskirkju að ræða meðan kirkjan hefur ekki tekjur af ferðafólki,“ segir í pistli Einars. 

Samkvæmt skrifum Einars greindi Hörður frá því á fundi sóknarnefndar í lok janúar að hann ætlaði sér ekki að sinna organistastörfum frá 1. júní þar sem heilsa hans leyfði ekki orgelleik á því stigi sem krafist er í Hallgrímskirkju. Því hafi hann veitt Einari heimild til að vinna að áðurnefndum heiðurssamningi. Meginefni þess samnings voru greiðslur í samræmi við heiðurslaun listamanna frá Alþingi til tveggja ára auk sérstakra styrkja vegna þriggja uppfærslna á verkum. Með því myndi hann hætta sem organisti og losna undan vinnuskyldu og ekki yrðu önnur takmörk lögð á vinnu hans með Mótettukórnum né Schola cantorum, að sögn Einars.

„Að margra dómi hefði HÁ verið sómi af slíkum heiðurssamningi en úr því að hann kaus að hafna honum og hverfa af vettvangi Hallgrímskirkju, er vonandi að hugmyndin nýtist Alþingi til þess að veita honum heiðurslaun listamanna þegar starfslokasamningnum við Hallgrímskirkju sleppir eins og á hefur verið bent,“ segir í pistlinum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kantor upp á kant við æðri völd í Hallgrímskirkju