Ráðherrar Norðurskautsráðs verða í vinnusóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Gestir á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem verður í Hörpu 20. maí, verða í vinnusóttkví meðan á fundinum stendur og mega hvorki fara út að borða né í skoðunarferðir. Þetta verður fyrsti alþjóðlegi fundurinn í Hörpu síðan í mars í fyrra þar sem gestir verða viðstaddir. 

Fundurinn markar lok tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og Rússar taka formlega við keflinu á fundinum. Meðal gesta verða Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands. Yfirleitt sækja um 300 manns fundi ráðsins, auk fjölmiðlafólks, en nú verður hann talsvert minni í sniðum og búist við um 75 manns.

„Fundurinn verður alfarið haldinn í svonefndri vinnusóttkví. Það þýðir að sendinefndirnar hafa ekkert samneyti við almenning utan þessarar sóttvarnabúbblu sem þeir verða í. Við erum að vinna að nákvæmri útfærslu hennar í góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, sérfræðingur í Utanríkisráðuneytinu, í viðtali í tíufréttum í kvöld.

Í þessu felst að þátttakendur mega ekki fara út að borða eða skoða sig um. Þeir verða sóttir á flugvöll, ekið á milli gististaða og Hörpu og verða í fylgd fulltrúa íslenskra stjórnvalda allan dvalartímann. Allir sem sækja fundinn þurfa að vera með nýtt PCR-próf við komu, gilt bólusetningarvottorð eða gilt vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu. Þá verður aðgangur almennings að fundarstað takmarkaður meðan á fundinum stendur. 

„Það er alltaf stórt verkefni að skipuleggja stóra fundi sem fulltrúar margra þjóða taka þátt í. En það er alveg sérstakt úrlausnarefni núna að leysa fundinn með tilliti til þeirra sóttvarna sem eru í gildi í landinu,“ segir Sveinn.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir