Dótturfélag Samherja kært til lögreglu í Færeyjum

03.05.2021 - 20:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skattayfirvöld í Færeyjum, hafa kært dótturfélag Samherja, Tindhólm, til lögreglu. Félagið hefur endurgreitt rúmar 340 milljónir til yfirvalda þar vegna vangoldinna skatta, að því er færeyska ríkissjónvarpið greindi frá í kvöld. 

Samherji var staðinn að því að skrá sjómenn sem voru á fiskiskipum í Namibíu, eins og þeir væru á farskipum í Færeyjum. Samkvæmt lögum í Færeyjum fá útgerðir skatt þeirra áhafna endurgreiddan.

Eftir að upplýsingar um málið komu fram í heimildaþætti sem færeyska sjónvarpið sýndi, og var unninn í samstarfi við Kveik, endurgreiddi Tindhólmur um 17 milljónir danskra króna, sem jafngildir rúmum 340 milljónum íslenskra króna til yfirvalda. 

Skattayfirvöld í Færeyjum tóku málið nýlega til rannsóknar og hafa nú ákveðið að vísa því til lögreglu, að því er greint var frá í fréttaþættinum Dagur og vika í færeyska ríkissjónvarpinu í kvöld. 

Þar var rætt við lögmann sem tengist málinu og staðfesti hann að Tindhólmur hafi endurgreitt upphæðina. Ekki var heldur greiddur skattur af launum áhafnanna í Namibíu.