Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Of lítið of seint og kosningalykt af aðgerðunum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðuflokka eru mishrifnir af efnahagsaðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var á föstudag. Að mörgu leiti sé hann skref í rétta átt en aðrir segja hann of lítið, of seint. Inga Sæland segir aðgerðapakkann anga af yfirvofandi kosningum.

Ríkisstjórnin ákvað á föstudag að framlengja lokunarstyrki og heimild til að taka úr séreignarsparnað, fjölga þeim sem sótt geta um viðspyrnustyrki auk þess sem þeir sem glímt hafa við langtímaatvinnuleysi fá 100 þúsund króna eingreiðslu eftir mánaðamótin. Þá verður veittur styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall og landsmenn eiga von á nýrri ferðagjöf fyrir sumarið.

Jafnframt verður veitt 600 milljóna króna viðbótarframlag til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni til að mæta aukinni þörf vegna COVID-19, boðið verður upp á sérstök sumarlán fyrir námsmenn hjá Menntasjóði námsmanna og þá verður þeim boðið upp á viðbótarlán fyrir næsta skólaár.

Einnig stendur til að gefa nýja ferðagjöf og þá verður greiddur sérstakur 30 þúsund króna barnabótaauki með hverju barni við álagningu opinberra gjalda einstaklinga í lok maí til allra þeirra sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar  segist hrifinn að ýmsu sem fram kemur í aðgerðunum. Það hafi blasað við að framlengja þyrfti ýmsar aðgerðir og koma fram með nýjar.

„Við hefðum viljað sjá ríkisstjórnina bregðast fyrr við af meiri krafti og taka undir tillögur okkar og verkalýðshreyfingarinnar um að lengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur, hækka grunnbætur og lengja tímabilið vegna þess að nú eru hundruðir að detta út af atvinnuleysisbótakerfinu og þurfa þá væntanlega að reiða sig á félagsaðstoð og hjálparsamtök. Þannig að það má segja, þetta er gott skref gott skref, en alltof lítið og alltof seint,“ segir Logi.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir þingmenn ekki hafa fengið upplýsingar um gang aðgerða.

„Þannig að það er í raunnni mjög erfitt að leggja mat á það hvort að þessar aðgerðir komi til móts við þann vanda sem við glímum við, sem er að vissu leiti sjálfskipaður miðað við stöðu atvinnuleysiss þar sem hefur verið lögð áhersla á að fólk bara bíði. Fari ekki og finni aðra vinnu eða búi til aðra vinnu heldur bara bíði á atvinnuleysisbótum eða hlutabótum. Þannig að atvinnuleysið er í rauninni sjálfskipað vandamál hjá ríkisstjórninni,“ segir Björn.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins segir kosningalykt af aðgerðunum. Hún sé þó ánægð með margt sem er að finna í aðgerðunum.

„Ég segi bara gleðileg jól í raun og veru. Það kemur ekkert á óvart, svona rétt fyrir kosningar að eitthvað sé frekar að gert. Þetta var stór aðgerðapakki. Við vitum ekki verðmiðann á honum en þetta hleypur á milljöðrum, en ég er alveg sammála því sem fjármálaráðherra segir að þessum peningum er vel varið, þeir eru í rauninni nauðsynlegir. Hvað okkur varðar þá hefðum við viljað setja mun meira fjármagn, og finnst þeim peningum líka vel varið, ég hefði haft hærri fjárhæðir til að taka utan um lægstu hópana,“ segir Inga.  

Fréttastofa leitaði viðbragða annara formanna stjórnarandstöðuflokka á þingi við efnahagsaðgerðum, án árangurs.