Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Man Utd gegn Liverpool frestað

Mynd með færslu
 Mynd: BBC - RÚV

Man Utd gegn Liverpool frestað

02.05.2021 - 16:03
Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta sem hefjast átti klukkan hálf fjögur er ekki enn hafinn vegna mótmæla stuðningsmanna Manchester United sem hafa verið í gangi við Old Trafford. Leiknum var frestað nú á fimmta tímanum.

Um 200 stuðningsmenn hafa meðal annars brotið sér leið inn á leikvanginn til að láta í ljós óánægju sína með eigendur Manchester United, Glazer-fjölskylduna. Leikmenn liðanna voru enn á hótelum þegar mótmælin hófust og eru því ekki ennþá komnir á völlinn. 

Ekki er enn ljóst hvenær leikurinn hefst, eða hvort hann verði yfir höfuð leikinn í dag en óstaðfestar fregnir hafa borist af því að stuðningsmenn hafi farið inn í búningsherbergi leikmanna. En það er brot á Covid-reglum ensku úrvalsdeildarinnar og samkvæmt þeim ber að fresta leiknum. 

Uppfært 16:40: Það var staðfest nú um klukkan hálf fimm að leiknum hafi verið frestað og fer hann ekki fram í dag. Er þetta gert til að tryggja öryggi leikmanna og starfsmanna. Ekki liggur fyrir hvenær leikurinn fer fram. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Mótmælendur ruddust inn á Old Trafford