Leikdagur: Öruggur 10 marka sigur á Ísrael

epa08942674 Iceland's Bjarki Mar Elisson reacts during the match between Algeria and Iceland at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 15 January 2021.  EPA-EFE/Khaled Elfiqi / POOL
 Mynd: EPA

Leikdagur: Öruggur 10 marka sigur á Ísrael

02.05.2021 - 10:40
Karlalandslið Íslands vann öruggan sigur á Ísrael í lokaleik undankeppni EM í handbolta 2022, 39-29. Ísland hafnar í öðru sæti undanriðilsins á eftir Portúgal.

 

Fyrir leikinn í dag var þegar ljóst að íslenska liðið væri komið með sæti á EM, sem fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári.

Íslenska liðið var hins vegar staðráðið í að bæta fyrir slakan leik gegn Litáen á fimmtudaginn var og það sýndu leikmenn frá byrjun. Ísland komst í 5-1 og leit aldrei um öxl eftir það. Hraðinn var mikill og var mikið skorað. Þegar gengið var til búningsklefa var staðan 21-14, Íslandi í vil.

Munurinn hélst áfram að aukast í seinni hálfleik. Mestu varð munurinn 11 mörk, 39-28, en Ísrael skoraði síðasta markið og lokatölurnar urðu 39-29.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk, Sveinn Jóhannsson skoraði 5, Elvar Örn Jónsson, Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson 4 hver, Aron Pálmarsson, Teitur Örn Einarsson og Oddur Grétarsson 3 hver og Bjarki Már Elísson 2.

Þar sem Portúgal lagði Litáen, 30-25, endar Ísland í öðru sæti riðilsins á eftir Portúgal.

Evrópumótið fer fram í 13.-30. janúar á næsta ári.