Helga Möller var efins um að senda ætti Daða út aftur

Mynd: Alla leið / RÚV

Helga Möller var efins um að senda ætti Daða út aftur

01.05.2021 - 20:48

Höfundar

Álitsgjafar Alla leið á RÚV leggja mat sitt á framlag Íslands til Eurovision í ár. Helga Möller þurfti að hlusta á lagið tvisvar til að sannfærast um að rétt ákvörðun hefði verið tekin.

Lag Daða og Gagnamagnsins, 10 Years, var tekið til skoðunar í þættinum Alla leið á RÚV í kvöld. Lagið fékk fullt hús stiga, 12 frá hverjum álitsgjafa, sem sjá fyrir sér að lagið eigi eftir að vekja mikla lukku í Rotterdam í maí.

Regína Ósk segir að atriðið eigi eftir að bræða Evrópu alla með einlægni og auðmýkt að vopni. „Ekki gleyma því að lagið er líka gott.“

Einar Bárðarson segir að það sé það eina atriðið í keppninni í ár sem er með öllu frumlegt og einstakt. „Hver er með rauðan Massey í myndbandinu sínu? Þú ert ekkert að reyna að vera annar en þú ert þegar þú ert með rauðan traktor í myndbandinu.“

Helga Möller viðurkenndi að hún var í fyrstu efins um að lagið væri líklegt til árangurs. „Ég elska þetta lag en samt sem áður þurfti ég að hlusta á það tvisvar til þess að komast á þá skoðun að það hefði verið rétt ákvörðun að senda hann aftur. Það sem hræddi mig var að þetta var svo einstakt í fyrra að þetta myndi kannski ekki virka núna. En sá efi er algjörlega farinn. Ég er viss um að þetta muni ganga upp hjá þeim.“

Sigurður Þorri Gunnarsson er sannfærður um að Daði og Gagnamagnið eigi eftir að syngja sig inn í hjörtu Evrópubúa: „Þetta er svo áreynslulaust hjá þeim. Það er það fallega við þetta. Þetta eru svo dásamleg hjón og það er gott að vera í kringum þau. Það smitast út þegar þau eru á sviðinu. Ég hef engar áhyggjur af þessu lagi í keppninni og ég er viss um að það eigi helling inni. Þegar æfingarnar byrja og það fer að spyrjast út hvernig þær ganga, þá á lagið eftir að síga ennþá ofar í veðbönkum. Meirihluti þeirra sem horfa á keppnina muna kannski ekki eftir laginu í fyrra, þannig að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af samanburði við það.“

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið“

Tónlist

Daði fær breska silfurplötu fyrir Think About Things

Menningarefni

Daði og gagnamagnið áttundu á svið í Rotterdam

Tónlist

Daði Freyr vildi alls ekki syngja Jaja Ding Dong