
„Upphaflega voru þar tveir starfsmenn, en munu nú vera sex og áformað er að þeir verði innan skamms orðnir fimmtán. Fjölgunin hefur ekki leitt til bættrar þjónustu sveitarinnar,“ segir í umsögninni. Fjarskiptafyrirtæki hafi haft mjög takmörkuð not af þjónustu sveitarinnar. Þetta skýrist m.a. af stuttum opnunartíma hennar, hann sé til kl. 16 á virkum dögum og lokað sé um helgar.
„Netglæpamenn vinna hins vegar bæði á kvöldin og um helgar, sem og öryggisstjórar fjarskiptafyrirtækjanna,“ segir jafnframt í umsögninni.
Sýn vill að rekstrargjald til netöryggissveitar verði lækkað úr 0,38% af bókfærðri veltu í 0,3% líkt og það var fyrir nokkrum árum. Tekið er í sama streng í umsögn Símans með frumvarpinu.
Í umsögn Símans er tími núverandi forstjóra í starfinu einnig gerður að umtalsefni. Samkvæmt frumvarpinu geti sami maður verið forstjóri Fjarskiptastofu „um ókomna tíð,“ segir í umsögn Símans. Þá er bent á að núverandi forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar hafi gegnt stöðunni í tæplega tvo áratugi. Þetta telur Síminn ekki eðlilegt og leggur til að sami háttur verði hafður á og gildir um Samkeppniseftirlitið en skipta verður um forstjóra þar á að minnsta kosti tíu ára fresti.
Míla hf. fer einnig fram á lækkun rekstrargjalds. Þá segir í umsögn Mílu að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að gera greiningu á fjarskiptamarkaðnum ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti en 7 ár hafi liði milli greininga.
Nánar má lesa um frumvarpið og umsagnir um það á vef Alþingis.