Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gistinóttum fjölgaði á Norðurlandi

30.04.2021 - 16:19
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Gistinætur á heilsárshótelum voru tæplega 49 þúsund í síðasta mánuði samanborið við 175 þúsund á sama tímabili í fyrra. Gistinóttum fækkaði því um 72 prósent á milli ára en þeim fjölgaði hins vegar um rúmlega níu prósent á Norðurlandi.

Gistinóttum fækkaði um 48 prósent á Vesturlandi og Vestfjörðum, um 84 prósent á höfuðborgarsvæðinu, um 75 prósent á Austurlandi og um 68 prósent á Suðurlandi. Norðurland sker sig því verulega úr en þar var fjölgun um 9 prósent. Þá mældist þar einungis 35 prósent fækkun í janúar og 17 prósent fækkun í febrúar. Á öðrum landsvæðum var fækkunin á bilinu 73 til 94 prósent á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Fækkun gistinótta erlendra ferðamanna hefur hins vegar verið svipuð á Norðurlandi og annars staðar á fyrstu þremum mánuðum ársins. „Lítill samdráttur í heildarfjölda gistinótta á Norðurlandi skýrist því af mikilli fjölgun gistinótta Íslendinga. Aukning gistinótta Íslendinga nam tæplega 6.700 í mars borið saman við sama tímabil í fyrra og nemur aukningin 161 prósenti. Hvergi á landinu var aukningin meiri,“ segir í hagsjá Landsbankans.