Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

AstraZeneca hugsanlega í boði á netinu

27.04.2021 - 17:00
Mynd: RÚV/Almannavarnir/Grímur Jón  / RÚV
Ef afgangur verður af bóluefni AstraZeneca kemur til greina að bjóða fólki að taka upplýsta ákvörðun á netinu um hvort það vilji fá þetta bóluefni. Verið er að skoða hvort körlum yngri en 60 ára verður boðið upp á AstraZeneca bóluefnið. Nú miðast bólusetningin við 60 ára og eldri.

Það er kippur í bólusetningum þessa daga. Á fimmtudaginn verður lokið við að gefa 60 ára og eldri fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca. Til greina kemur að efnið verði boðið körlum á aldrinum 55 ára til 60 ára. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um þetta.

„Við þurfum að sjá hvernig þetta gengur. Eins og ég hef bent á er áhættan fyrst og fremst hjá konum 55 ára og yngri. Við höfum þess vegna verið að skoða það hvort við eigum að bjóða ArstraZeneca bóluefnið meðal karlmanna yngri en 60 ára. Það kemur bara mjög vel til greina því að þetta bóluefni er mjög gott og áhrifaríkt. Og aukaverkanirnar af því sjást ekki hjá þeim hópi og eru þess vegna ekki meiri en hjá öðrum bóluefnum,“ segir Þórólfur.
 

Upplýst ákvörðun á netinu

Eitthvað er um að fólk vilji ekki þiggja bóluefni frá Astra Zeneca. Þórólfur segir að ekki sé tiltækar tölur en þær verði teknar saman á næstu dögum. Nú er verið að bjóða bæði körlum og konum eldri en 60 ára AstraZeneca. Ekki stendur til að bólusetja konur 55 ára til 60 ára með AstraZeneca.
Fjöldi karla í aldurshópnum 55 ára til 60 ára er tæplega 9 þúsund og einhverjir í þeim hópi búnir að fá bóluefni vegna t.d. undirliggjandi sjúkdóma. Ef afgangur verður af Astra Zeneca, kemur þá til greina að bjóða það á einhverskonar opnum bólusetningarmarkaði?

„Já, það kemur alveg til greina að bjóða fólki það. Við erum búin að ræða það. Við gerum bara grein fyrir því hvaða áhyggjur við höfum af aukaverkunum. Þá getur fólk tekið upplýsta ákvörðun um hvort það vilji eða ekki þetta bóluefni. Það getur alveg komið til greina. Það væri hægt að hafa vefsíðu á netinu þar sem fólk myndi merkja við eða smella á hnapp sem gæfi það til kynna að það væri tilbúið að fá það bóluefni,“ segir Þórólfur.

Hann bendir reyndar á að það stefni í að það verði afgangur af öllum bóluefnum. Af Janssen bóluefninu séu t.d. 230 þúsund skammtar. Aðeins þarf eina sprautu af því efni.

Nánar er rætt við Þórólf í Speglinum.