Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óbreytt reglugerð um strandveiðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Strandveiðar mega hefjast mánudaginn 3. maí og standa út ágústmánuð. Leyft verður að veiða samtals 11.100 tonn af óslægðum botnfiski, sem er það sama og upphafi tímabilsins í fyrrasumar.

Leyfilegt er að stunda strandveiðar í maí, júní, júlí og ágúst. Í reglugerð sjávarútvegsráðherra segir að hverju skipi með strandveiðileyfi sé heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar.

Strandveiðisvæðin eru fjögur og skiptast á eftirfarandi svæði:
A: Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur
B: Strandabyggð – Grýtubakkahreppur
C: Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur
D: Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð

Róa má fjóra fyrstu daga vikunnar og er því ekki heimilt að veiða á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Veiða má allt að 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa, eða samtals 11.100 tonn af óslægðum botnfiski.

Þetta er jafn mikið og í upphafi strandveiða í fyrrasumar. Þá var ljóst, um miðjan júlí, að aflaheimildir dygðu ekki út tímabilið og bætti sjávarútvegsráðherra því 720 tonnum af þorski við áður útgefnar heimildir. Það dugði hins vegar ekki til og voru veiðarnar stöðvaðar 20. ágúst, þegar tæp vika var eftir af tímabilinu.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, býst alls ekki við færri bátum við strandveiðar nú en í fyrra. „Menn eru að taka púlsinn og allir að gera sig klára,“ segir hann.