Þrettán dóu í eldsvoða á gjörgæsludeild

23.04.2021 - 05:54
epa09154097 An ambulance outside the Vijay Vallabh COVID care hospital in the aftermath of a fire, in Virar West, on the outskirts of Mumbai, India, 23 April 2021. At least 12 patients who were being treated for COVID-19 died after a fire broke out inside the ICU ward of the hospital.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrettán sjúklingar dóu í eldsvoða á sjúkrahúsi í úthverfi Mumbai í Indlandi eldsnemma í morgun. AFP fréttastofan hefur eftir starfsmanni slökkviliðsins í borginni að eldurinn hafi komið upp á gjörgæsludeild sjúkrahússins.

Þar voru sautján sjúklingar, allir með COVID-19. Þeim fjórum sem komust lífs af hefur verið komið fyrir á öðrum deildum sjúkrahússins.

Kórónuveirufaraldurinn breiðist út um landið á ógnarhraða um þessar mundir. Annan daginn í röð greindist metfjöldi tilfella á einum sólarhring á Indlandi, þegar yfir 330 þúsund sýni reyndust jákvæð í gær. Alls hafa nú yfir 16 milljónir greinst með COVID-19 í landinu. Nærri 2.300 dóu af völdum sjúkdómsins í gær, og eru nú nærri 187 þúsund látnir í landinu af hans völdum samkvæmt heimildum heilbrigðisyfirvalda. 

Heilbrigðiskerfi landsins er á heljarþröm og súrefnisbirgðir af skornum skammti. Í gær bárust fregnir af því að yfir tuttugu COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsi í vestanverðu landinu hafi dáið eftir að leiðsla úr súrefnistanki í öndunarvélar rofnaði.