Lífstíðardómur fyrir sprengjuárás í New York

23.04.2021 - 01:11
FILE - In this Jan. 11, 2018 court room file drawing, U.S. Marshals escort defendant Akayed Ullah, center, into court in New York for his arraignment on charges of setting off a pipe bomb in New York City's busiest subway station at rush hour last
 Mynd: AP
Maður sem sprengdi rörasprengju í neðanjarðarlestarstöð í New York árið 2017 var dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag. Fréttastofa BBC greinir frá. Dómarinn Richard Sullivan sagði árásina villimannslega og ógeðfellda.

Akayed Ullah sprengdi sprengjuna í neðanjarðarlestarstöðinni við Times Square á háannatíma 11. desember 2017. Stöðin er sú fjölfarnasta í borginni. Enginn lést í sprengingunni en fjórir slösuðust. Loka þurfti lestarstöðinni eftir sprenginguna.

Rörasprengjan var búin til úr efnum af byggingasvæði í nágrenni við lestarstöðina. Þar vann Ullah sem rafvirki. Hann var fæddur í Bangladess en flutti til Bandaríkjanna árið 2011. Árið 2017 bjó hann í Brooklyn ásamt móður sinni, systur og tveimur bræðrum. Eiginkona Ullah og sonur hans bjuggu í Bangladess.

Saksóknarar sögðu árás Ullah hafa verið drifna áfram af áróðri hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Þeir sögðu hann hafa verið reiðan vegna utanríkisstefnu þáverandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, í Miðausturlöndum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV