90 sektir vegna sóttvarnabrota

23.04.2021 - 07:38
ríkislögreglustjóri, húsnæði ríkislögreglustjóra
 Mynd: ruv.is
Frá því COVID-19 faraldurinn barst til Íslands í fyrravor hafa 90 verið sektuð vegna sóttvarnabrota, 85 einstaklingar og fimm fyrirtæki. Þetta jafngildir 29 prósentum þeirra 312 brota sem hafa verið skráð í málaskrá lögreglu eða rúmlega fjórðungi.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að alls hafi 413 komið við sögu í skráðum sóttvarnabrotum, 349 einstaklingar og 64 fyrirtæki. Fréttin byggir á svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn blaðsins. Mismunurinn á fjölda mála og fjölda þeirra sem tengjast þeim skýrist af því að stundum tengjast fleiri en einn sóttvarnabroti. Það getur til dæmis verið fyrirtæki og eigandi sem skráð eru vegna sama málsins auk þess sem einhverjir geta tengst fleiri en einu máli að því er fram kemur í blaðinu. 

Ríkissaksóknari gaf út sín fyrstu fyrirmæli um sektir vegna sóttvarnabrota 27. mars í fyrra. Samkvæmt þeim gátu sektir numið frá 50 þúsund krónum upp í hálfa milljón. Vægustu sektirnar voru við því að fólk sækti samkomu þar sem ekki væri farið eftir fjöldatakmörkunum, 50 þúsund krónur, eða færi ekki í sóttkví eða brygðist skyldum um framferði sitt í sóttkví, við því lá 50 til 250 þúsund króna sekt. Hærri sektir lágu við því að brjóta gegn einangrun, 150 til 500 þúsund krónur. Brot skipuleggjenda samkoma við fjöldatakmörkunum og lokun samkomustaða og annarar starfsemi gátu numið allt að hálfri milljón króna. Síðan þá hafa bæst við fleiri sektarflokkar í nýjum fyrirmælum ríkissaksóknara. Svo sem fyrir brot gegn aðgerðum á landamærunum og fyrir að nota ekki grímu þar sem þær eru skylda.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV