Vilja skýrslu um viðbrögð við skipulögðum glæpum

22.04.2021 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Alþingi samþykkti í nótt skýrslubeiðni Miðflokksins um að dómsmálaráðherra verði falið að gera skýrslu um viðbrögð við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Beiðnin var samþykkt með 52 samhljóða atkvæðum en ellefu þingmenn voru fjarverandi. Í beiðninni er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðgerðir sem ráðist hefur verið í eða stendur til að ráðast í til að vinna gegn uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi.

Í skýrslubeiðninni er sérstaklega vísað í skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem gefnar voru út árin 2015, 2017 og 2019.  

Þingheimur óskar eftir svörum um hvort að lögð hafi verið áhersla á að fjölga lögreglumönnum sem rannsaka skipulagða glæpi, hvort aukin áhersla hafi verið lögð á farþegalistagreiningar við landamæraeftirlit og hvort rannsóknarúrræði lögreglu hafi verið rýmkuð eða þeim fjölgað eftir ábendingar í skýrslunum. Að auki er óskað svara ráðherra um hvort til standi að auðvelda brottvísanir erlendra aðila sem verða uppvísir að afbrotum sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, hvernig og hvort frumkvæðislöggæsla lögreglu við afbrotavarnir hafi verið efld, og hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að þeir sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og kúgunum af ýmsum toga svo sem mansali, eða hvaða aðgerðir eru áformaðar til að vinna gegn slíku.

Að lokum óska þingmenn upplýsinga um hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að glæpasamtök misnoti opinbera þjónustu og kerfi sem lið í skipulagðri starfsemi þeirra.

Skýrslubeiðninni var dreift á dreift á þingi á mánudag og hún samþykkt við lok fundar í nótt, að lokinni afgreiðslu lagabreytinga vegna sóttvarnaaðgerða á landamærunum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV