Tekur klukkutíma að „sprengja“ sjúkrabíl

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sjúkraflutningamenn hafa fundið fyrir auknu álagi vegna faraldursins líkt og aðrir. Undandarna daga hafa covid flutningar á höfuðborgarsvæðinu hlaupið á tugum . Á milli sjúklinga þarf að þrífa sjúkrabílana hátt og lágt, og það tekur rúma klukkustund í hvert skipti

Í þriðju bylgjunni var álag á sjúkraflutningamenn mjög mikið. Flytja þurfti tugi covid sjúklinga á milli staða á degi hverjum. Þegar mest lét voru yfir 50 covid flutningar á dag. Seinustu daga hafa COVID-19 tengdir flutningar hlaupið á tugum. Við þessa flutninga þarf að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum og klæðast hlífðarbúnaði.

Fréttastofa fékk á dögunum að fylgjast með ferlinu sem það tekur sjúkraflutningamenn að búa sig í slíka flutninga og sinna þrifum og sóttvörnum í sjúkrabílunum sem notaðir eru í slíka flutninga.

„Við bara byrjum við á að búa okkur alveg, svo erum við með stígvél, svo förum við alltaf í tvöfalda hanska, ef við komum eitthvað við sjúklinginn og komum svo inn í bíl þá getum við alltaf farið úr einu hanskalagi.“   

Hvernig fer um þig í þessu?

Þetta verður heitt en þetta er allt í lagi svona styttri flutninga en ef við erum með vitað smit þá megum við fara í „back to back“ COVID-flutninga, þá getur þetta tekið tíma.  Ef það er einhver í sóttkví þá þurfum við að skipta um galla, þrífa bíla, sótthreinsa allt á milli. Svo seinasti parturinn sem er óþægilegasti parturinn við þetta, það eru gleraugun. Þá er maður orðinn klár,“ segir Steingrímur Örn Kristjánsson sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Þú hlýtur nú að vekja athygli svona, fólk mætir ekki fólki í svona útbúnaði á hverjum degi?

„Nei, á gatnamótum og svona, margir snúa sig úr hálsliðnum þegar maður kemur“ segir Steingrímur.

Reynt er að hafa eins lítið af búnaði og hægt er í þeim sjúkrabílum sem sinna covid tengdum flutningum til að fækka snertiflötum. 
Í fjórðu bylgju hafa flutningar með fólk í sóttkví aukist nokkuð á ný. Þá þarf að flytja til sýnatöku og skoðunar á heilbrigðisstofnunum. Eftir flutninginn þarf að þrífa bílana hátt og lágt og sótthreinsa með svokallaðri sótthreinsisprengju. 

„Þessi græja drepur allar bakteríur og allt inni í bílnum hjá okkur. Hún fær að malla inni í bílnum í klukkutíma, þá ætti bíllinn að vera tilbúinn til notkunar aftur,“ segir Steingrímur.