Tekinn á 127 kílómetra hraða á leið í matinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögregla stöðvaði ökumann á 127 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku í Reykjavík á níunda tímanum í gærkvöld. Þar er 80 kílómetra leyfilegur hámarkshraði. Að sögn lögreglu gaf ökumaðurinn þá skýringu á hraðakstri sínum að hann væri orðinn of seinn í mat.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkrum verkefnum í gær sem mörg hver sneru að ölvunarakstri að akstri undir áhrifum fíkniefna.

Einn var handtekinn vegna líkamsárásar, skömmu fyrir miðnætti. Sá hafði ráðist að öðrum og barið hann í lærið með kylfu við Granda í Reykjavík um klukkan átta. Þegar lögregla kom að kvaðst sá sem fyrir árásinni varð ekki geta stigið í fótinn. Viðkomandi var því fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi en fannst um það bil þremur klukkustundum síðar. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Upp úr klukkan níu handtók lögreglan mann í Hlíðunum í Reykjavík, þar sem hann gekk um með hendur fullar af verkfærum. Hann viðurkenndi strax að hafa stolið þeim úr bíl.

Þá var ung kona handtekin í austurbæ Reykjavíkur í nótt grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna, hafa ítrekað keyrt bíl þrátt fyrir að hafa verið svipt ökuréttindum, fyrir að hafa fíkniefni í vörslu sér og fyrir ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni. 

Leiðrétt 9:51 Í upphaflegri gerð fréttarinnar sagði að hámarkshraði í Ártúnsbrekku væri 60 kílómetrar á klukkustund. Það hefur verið leiðrétt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV