Rússar draga herlið sitt frá landamærum Úkraínu

22.04.2021 - 14:16
epa08445202 Russian President Vladimir Putin attends a meeting with Russian Defence Minister Sergei Shoigu (not pictured) via teleconference call at Novo-Ogaryovo state residence outside Moscow, Russia, 26 May 2020. Russian President Vladimir Putin announced 24 June as the date for the Victory Parade. Earlier the traditional troops parade as part of  the Victory Day Parade which is annually held on 09 May, was cancelled due to Covid-19 epidemic in Russia.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK /KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Rússar ætla að draga herlið sitt til baka frá landamærunum að Úkraínu, í kjölfar umfangsmikilla æfinga nærri Krímskaga. Spenna hefur aukist á svæðinu síðustu vikur og Rússar og vestræn ríki skipst á yfirlýsingum um stöðuna. Rússar voru varaðir við að fara yfir strikið á meðan þeir svöruðu því til að þeir mættu gera hvað þeir vildu innan sinna landamæra.

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti svo í dag að herliðið yrði dregið til baka og yrði að fullu farið aftur 1. maí, þar sem markmið æfingarinnar hefðu að fullu gengið eftir. Þó var tilkynnt um aðra umfangsmikla æfingu í vesturhluta Rússlands síður á árinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, voru meðal þjóðarleiðtoga sem ræddu við Vladímír Pútín Rússlandsforseta um að draga herliðið til baka. Pútín svaraði því til í ávarpi í gær að vesturlönd ættu ekki að fara yfir línuna og skipta sér af innanríkismálum landsins.

Evrópusambandið taldi að um hundrað þúsund rússneskir hermenn hefðu verið nærri landamærunum þegar mest lét, sem er mesti fjöldi síðan Rússar innlimuðu Krímskaga fyrir sjö árum.