Orð ráðherra um freistni fóru illa í þingmenn

22.04.2021 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra uppskar reiði stjórnarandstöðuþingmanna í lok næturfundar á þingi þar sem lög um aðgerðir á landamærunum voru afgreiddar. Stjórnarandstæðingar höfðu gagnrýnt stjórnina fyrir lög sem gengju ekki nógu langt. Svandís sagði að það hefði verið gott ef þingmenn hefðu getað verið sammála um frumvarpið en það hefði greinilega verið freistandi fyrir suma að láta málið snúast um eitthvað annað. Þessu tóku stjórnarandstæðingar óstinnt upp og sögðu málið illa unnið.

Frumvarpið var samþykkt með 28 atkvæðum stjórnarliða. Allir þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu. Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokks gerðu það líka en Birgir Ármannsson þingflokksformaður sat hjá, Sigríður Andersen greiddi atkvæði gegn frumvarpinu og þrír voru fjarverandi. Stjórnarandstæðingar sátu ýmist hjá við atkvæðagreiðsluna eða voru fjarverandi, fyrir utan Olgu Margréti Cilia, varaþingmann Pírata, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

Freistandi fyrir suma

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir atkvæði sínu í lokin. 

„Það hefði verið gott fyrir málið og gott fyrir samstöðu í samfélaginu að við gætum verið sammála um að renna styrkari stoðum undir nauðsynlegar ráðstafanir sóttvarnalæknis. Það hefur greinilega verið freistandi fyrir ýmsa í umræðunni hér í dag að láta þetta mál snúast um eitthvað annað, en  það verður bara svo að vera,“ sagði Svandís. Við þau orð ráðherra við hávaði úr þingsal þar sem fjöldi þingmanna sló í borð sín til að biðja um orðið. Svo hart kvað að þessu að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kvaðst ekki viss um að hann hefði náð öllum niður sem báðu um orðið.

Svandís sagði að aðalatriðið væri að samfélagið væri að ná eftirtektarverðum árangri í baráttunni.

Enginn situr hjá til að afla sér vinsælda

„Það er enginn hér inni að sitja hjá eða jafnvel að greiða atkvæði gegn þessu máli sér til vinsælda,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann sagði hátt og skýrt ákall um að þingmenn samþykktu lög um að herða aðgerðir á landamærunum til að geta aukið frelsið innanlands. Hann kvaðst búast við því að þurfa að rökræða við ansi marga stuðningsmenn Pírata um þá ákvörðun sína að sitja hjá. Hann sagðist hafa unnið eið að stjórnarskrá og stæði við hann, og vísaði þar til eiðs um að þingmenn séu bundnir af sannfæringu sinni.

„Það er eiginlega fátt ömurlegra í fari fólks en þegar það lætur vandræðagang innan sinna raða bitna á öðrum og sýnir með því óþolandi ólund,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann rifjaði upp að heilbrigðisráðherra hefði sett reglugerð sem ekki væri lagaheimild fyrir. Sú reglugerð hefði gengið mun lengra en núverandi lagasetning þrátt fyrir að staða faraldursins hefði ekki verið jafn slæm þá og hún er nú. Hann sagði Svandísi þurfa að útskýra hvers vegna hún telji nóg að ganga skemur núna en fyrir þremur vikum og kenndi sundurlyndi við Sjálfstæðisflokkinn um.

Óskaplega aumt

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi orð Svandísar. „Óskaplega var þetta aumt hjá hæstvirtum heilbrigðisráðherra,“ sagði hún og kvað fjölda fólks hafa reynt að taka til í frumvarpinu, sem margir hefðu kvartað undan „meira að segja okkar geðþekki og ágæti sóttvarnarlæknir sem við höfum reynt að fylgja í einu og öllu“.

Hrakfarir heilbrigðisráðherra í þessum efnum halda áfram,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Hann kvaðst ekki hafa ætlað sér að taka til máls á ný en sagðist ítreka að ábyrgðin á málinu lægi algjörlega óskipt hjá ríkisstjórninni. „Hanteringin í nefndinni var einfaldlega með þeim hætti að ríkisstjórnin kom sér ekki einu sinni saman um það nefndarálit sem hér liggur fyrir. Það er minnihluti nefndarinnar sem er á bak við þetta nefndarálit sem hér liggur fyrir.“ Hann sagði að heilbrigðisráðherra gæti ekki boðið upp á annað en skæting.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með ræðu heilbrigðisráðherra. „En getur verið forseti að hæstvirtur ráðherra sé að beina orðum sínum til Sjálfstæðisflokksins, til stjórnarflokkanna, vegna þess einmitt að það náðist ekki meirihluti í háttvirtri velferðarnefnd fyrir þessu frumvarpi sem við erum að afgreiða núna.“ Oddný kvaðst túlka orð Svandísar sem gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn.

Varnir með skynsamlegum hætti

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði mikilvægt að þingmenn kláruðu málið. „Hér erum við að taka til ákveðinna varna með skynsamlegum hætti, ríkisstjórnin, og leggja það til við Alþingi, sem mér sýnist Alþingi vera tilbúið að taka til sín, að takmarka og búa til auknar varnir á landamærum tímabundið meðan við erum að klára það sem við erum að fara í gegnum.“ Hann sagði stöðuna hér góða miðað við önnur lönd og sama væri að segja um framgang bólusetningar.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði mikilvægt að styrkja varnir á landamærunum til að geta létt á eðlilegu lífi innanlands. Hann sagði að verið væri að byggja varnir sem myndu hrynja þegar á þyrfti að halda. Hann sagði að vel hefði verið hægt að taka einn dag í viðbót til að vinna betur að málinu, þar sem reglugerðin yrði hvort eð er ekki tilbúin fyrr en á mánudag. „Til þess að tryggja það að þessar varnir sem er verið að byggja með þessum lögum, varnir á landamærunum til að við getum lifað eðlilegu lífi innanlands, hrynji ekki síðan fyrir dómstólum í kjölfarið.