Heiðlóan er fugl ársins

22.04.2021 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: Jakob Sigurðsson
Heiðlóan nýtur mestra vinsælda meðal landsmanna samkvæmt kosningu sem Fuglavernd efndi til. Himbriminn veitti heiðlóunni hörðustu samkeppnina en vorboðinn ljúfi stóð að lokum uppi sem sigurvegari. Þátttakendur gátu greitt fimm fuglum atkvæði sitt og var lóan hlutskörpust hvort sem litið er til atkvæða í fyrsta sætið eða öll fimm sætin.

Í fréttatilkynningu frá Fuglavernd segir að viðtökur hafi verið mjög góðar og stefnt sé að því að kosningin verði árlegur viðburður hér eftir. „Keppnin er  haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.“

Þrátt fyrir það er staða heiðlóunnar góð á Íslandi. Hátt í 400 þúsund pör eru talin vera í stofninum. „Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpur hér á landi. Heiðlóan er farfugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðallega Írlands, en einnig í Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og árósa.“

Tuttugu fuglategundir voru í framboði, ef svo má segja. Tíu efstu sætin eru svo skipuð.

1. Heiðlóa
2. Himbrimi
3. Rjúpa
4. Hrafn
5. Maríuerla
6. Kría
7. Hrossagaukur
8. Lundi
9. Svartþröstur
10. Músarrindill

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV