Halda í jákvæðnina og ætla sér að sýna söngleikinn Leg

Mynd: Leikfélagið Verðandi / Leikfélagið Verðandi

Halda í jákvæðnina og ætla sér að sýna söngleikinn Leg

22.04.2021 - 10:04

Höfundar

Á ýmsu hefur gengið hjá Leikfélaginu Verðandi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ en aðeins þremur dögum áður en frumsýna átti söngleikinn Leg var tilkynnt um tíu manna samkomubann og allt sett á ís. Nú vonast aðstandendur sýningarinnar til að geta frumsýnt á laugardag.

Öflug leiklistarbraut hefur lengi verið starfrækt í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og þar hafa verið glæsilegar uppsetningar á ýmsum söngleikjum. Nýjasta verkefni leikfélagsins Verðandi er söngleikurinn Leg eftir Hugleik Dagsson með tónlist eftir hljómsveitina Flís. Verkið, sem var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu 2007, fjallar um Kötu sem uppgötvar á 19 ára afmælisdaginn að hún er ólétt, kærastinn hennar er að hætta með henni og foreldrar hennar ætla að skilja. Allt saman tvinnast þetta svo á ótrúlegan hátt við örlög Íslands.   

Sigrún Ósk Karlsdóttir, formaður Verðandi, segir að aðdragandinn að því að þetta verk varð fyrir valinu hafi verið áhugaverður. Upphaflega hafi staðið til  að setja upp Köttinn með höttinn eftir Dr. Seuss en þegar þau hittu leikstjórann, Birnu Rún Eiríksdóttur, hafi hún haft aðrar hugmyndir. „Við ætluðum sem sagt að setja upp barnaleikrit en enduðum á að setja upp sýningu um óléttu og kynlíf með mjög svörtum húmor,” segir Sigrún Ósk og hlær. 

Mynd með færslu
 Mynd: Leikfélagið Verðandi
Sigrún Ósk Karlsdóttir, formaður Leikfélagsins Verðandi, og Birna Rún Eiríksdóttir leikstjóri.

Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona og leikstjóri sýningarinnar, segir að það það hafi blundað talsvert lengi í henni að setja upp söngleikinn Leg en fyrir nokkrum árum hafi hún verið á menntaskólaleikriti og farið að hugsa um hvað það væri sérstakur hópur að vinna með, hálffullorðnir einstaklingar en samt krakkar. Þannig kviknaði áhuginn á að vinna með þessum aldri og hún fór að hugsa um hvað þeim gæti fundist skemmtilegt að setja upp, hvað þau gætu sjálf tengt við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Leikfélagið Verðandi
Mynd af æfingu á söngleiknum Leg.

Birna hafði ekki séð Leg en heyrt um það og vissi að það fjallaði um ólétta stelpu í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. „Sem er nákvæmlega það sama og ég gekk í gegnum, ég var sjálf í FG og varð ólétt 19 ára,” segir Birna. Hún fór því að skoða verkið og fannst það fullkomið fyrir þennan aldur, akkúrat á línunni, örlítið grófur húmor, fyndið og hressandi. Það hafi gefið augaleið að setja verkið upp í Garðabæ enda sé þar gert óspart grín að Garðbæingum og ríku fólki. 

„Þó þetta snúist um Kötu og að hún verði ólétt þá undir niðri snýst þetta, eins og svo mörg verk, um hvort kapítalisminn endi á því að ráða ríkjum eða ekki.”

Það hefur vitanlega tekið á að stýra söngleik í heimsfaraldri en Birna segir að við upphaf ferlisins hafi litið út fyrir að aðstæður hér á landi yrðu ágætar þegar að sýningum kæmi. Hún og Þórey Birgisdóttir, danshöfundur verksins,  hafi hins vegar verið meðvitaðar um að hafa hópinn í kringum 20 manns þannig að það yrði alltaf hægt að æfa með allan hópinn. „Maður er bara búin að hafa þetta alltaf á bak við eyrað í öllu ferlinu,” bætir hún við. 

Fótunum var svo kippt undan sýningunni þremur dögum fyrir áætlaða frumsýningu, að loknum degi þar sem allt small, að sögn Birnu. Tíu manna samkomubanni var komið á og skólunum var lokað.

„Þetta er annað en þegar maður vinnur í leikhúsi með fagfólki, þeim finnst þetta nógu erfitt. En þetta er ekki vinna krakkanna, þau fá ekki borgað, þau þurfa að keyra þetta áfram bara á gleðinni.“

Það hafi því verið svolítið erfitt að komast aftur á sama stað og fyrir þessa þriggja vikna pásu en Birna segir að nú sé allt við það að smella saman á nýjan leik.

Mynd með færslu
 Mynd: Leikfélagið Verðandi
Hlífðarskildir koma við sögu í uppsetningu FG á Leg.

Í haust fékk leikfélagið leyfi til að halda prufur sem lituðust auðvitað af covid, grímum og tveggja metra reglunni. Þegar leikhópurinn hafði verið valinn úr hópi rúmlega 100 umsækjenda tók við langur tími þar sem ekkert var hægt að æfa. Þó var haldinn covid-samlestur þar sem allir voru með grímur og tvo metra á milli. Aðstandendur sýningarinnar hafi því raunar kynnst krökkunum með grímur og eru bara nýlega farnir að sjá þau án þeirra. Stjórn leikfélagsins, og raunar allir sem að sýningunni koma, hafi hins vegar tekið á ástandinu með jákvæðni eftir raunir síðasta árs þar sem söngleikurinn Reimt fékk aðeins tvær sýningar áður en öllu var skellt í lás. 

„Við erum búin að vera allt þetta ár að reyna að halda í jákvæðnina í kringum þessa sýningu, við ætlum okkur að sýna hana,“ segir Sigrún Ósk að lokum.

Um 100 manns koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Fyrir utan listrænu stjórnendurna, Birnu Rún og Þóreyju, eru það allt nemendur úr skólanum. Það er auðvitað leikarahópurinn og dansararnir, nemendur sem sjá um hár og förðun, leikmynd, tækni og búninga en í skólanum er einnig starfrækt fatahönnunarbraut sem kemur náið að búningahönnun verksins.

Leg verður frumsýnt í hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ 24. apríl en nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu leikfélagsins Verðandi. Stiklu fyrir sýninguna má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Frægð, vinátta og eilíft líf