Gunnar Steinn til liðs við Stjörnuna

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Gunnar Steinn til liðs við Stjörnuna

22.04.2021 - 11:32
Karlalið Stjörnunnar í handbolta hefur samið við leikstjórnandann Gunnar Stein Jónsson fyrir komandi tímabil. Hann verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.

Gunnar Steinn hefur leikið sem atvinnumaður erlendis undanfarin 12 ár, nú síðast með Göppingen í Þýskalandi þar sem hann er lánsmaður frá Ribe-Esbjerg í Danmörku. Áður en hann hleypti heimdragandanum lék hann með Fjölni og HK hér heima.

Gunnar Steinn á að baki 42 landsleiki fyrir Íslands hönd og var á ný valinn í landsliðið fyrir leikina þrjá í undankeppni EM sem framundan eru. 

Hann bætist í vel mannað þjálfarateymi Stjörnunnar í sumar. Patrekur Jóhannesson er þjálfari liðsins og aðstoðarþjálfarar eru Einar Hólmgeirsson og Stephen Nielsen, og nú Gunnar Steinn að auki.

„Eftir 12 ár á Evróputúr með fjölskylduna þá tókum við nú ákvörðun að halda heim á klakann góða. Patrekur og stjórn Stjörnunnar heilluðu mig með því verkefni sem þeir hafa hrint af stað í Garðabænum og verður spennandi að taka þátt í því,“ segir Gunnar Steinn í fréttatilkynningu Stjörnunnar.

„Það var mikilvægur þáttur fyrir mig að koma að þjálfun samhliða því að taka skrefið til Íslands og byrja þannig nýjan kafla á mínum ferli með nýjum áherslum. Ég tel mig hafa margt fram að færa á því sviði og á sama tíma verður það góður skóli fyrir mig að starfa við hlið Patta,“ bætir hann við.