„Eitthvað í þessu fékk hárin til að rísa“

Mynd: EFE / EPA

„Eitthvað í þessu fékk hárin til að rísa“

22.04.2021 - 12:15

Höfundar

Fyrr á þessu ári barst tónlistarheiminum harmafregn þegar raftónlistartvíeykið Daft Punk tilkynnti að þeir væru hættir. Mánudaginn 22. febrúar deildu félagarnir átta mínútna myndbandi sem kallast Epilogue, eða eftirmáli, þar sem ákvörðunin var kunngjörð. Engin ástæða var gefin fyrir henni.

Í þættinum Franska rafbyltingin, sem er á dagskrá á Rás 2 í dag, munu Matthías Már og Lovísa Rut fjalla um þessa frönsku sveit sem þykir ein sú áhrifamesta í heiminum á sínu sviði. Plötur þeirra hafa selst í mörgum milljónum eintaka.

Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo stofnuðu Daft Punk í París árið 1993 og slógu í gegn með plötunni Homework árið 1997.

Í þættinum verður saga sveitarinnar rakin frá því að félagarnir kynntust árið 1987. Fjallað verður um myndböndin, hjálmana, frönsku hústónlistina, tónleikaferðalögin og Íslandsheimsóknina svo sitthvað sé nefnt.

Natalie G. Gunnarsdóttir, eða DJ Yamaho eins og hún er oft kölluð á kvöldin, segir frá því þegar hún kynntist tónlist Daft Punk í gegnum plötuna Homework sem kom út árið 1997. „Það er sú plata sem algjörlega greip mig, og þeirra hljóðheimur,“ segir hún. Mikil gróska var í frönsku hústónlistarsenunni á þessu tímabili sem Natalie segist hafa orðið ástfangin af. Hljóðheimurinn sem þá var ráðandi hafi verið innblásinn af hústónlist frá Chicago og teknó frá Detroit meðal annars. „Það er akkúrat sá hljóðheimur sem ég byggi allt mitt á.

Plötusnúðurinn DJ Margeir heyrði fyrst í hljómsveitinni árið 1996 þegar hann var starfsmaður í plötuversluninni Þruman, sem upprunalega var stofnuð til að selja þungarokk, „en þarna fékk ég í hendurnar síngúl, Da Funk, og það var eitthvað í þessu sem gjörsamlega fékk hárin til að rísa á höndunum. Þetta var alveg sturlað.“

Franska rafbyltingin er á dagskrá í dag, á sumardaginn fyrsta, kl. 16.05 á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daft Punk: „Við höfum ekkert á móti persónudýrkun“

Tónlist

Hljómsveitin Daft Punk hætt