Brottrekinn sveitarstjóri ósáttur við sveitarstjórn

22.04.2021 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson - Strandabyggð
Þorgeir Pálsson sem sagt var upp sem sveitarstjóra Strandabyggðar í vikunni segist vera að íhuga það alvarlega að skoða réttarstöðu sína í kjölfar uppsagnarinnar. Hann og sveitarstjórn hafi greint á í ýmsum málum, til að mynda hvað varðar hagsmunaárekstra og tengingum við styrkþega úr sjóðum sveitarfélagsins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu Þorgeirs sem birtist á vefnum Strandir.is

„Eins og flestum ykkar er án efa kunnugt, ákvað sveitarstjórn Strandabyggðar í gær, 20. apríl 2021 að nú skildu leiðir skilja. Var óskað eftir fundi um starfslok. Þau starfslok sem fulltrúi sveitarstjórnar Strandabyggðar bauð mér voru óásættanleg af minni hálfu. Það lá því fyrir að annað hvort myndi ég segja upp eða að mér yrði sagt upp. Ég sá enga ástæðu til að segja upp, bæði þar sem ég hafði ekkert annað gert en að framfylgja mínum skyldum og hlutverki sem sveitarstjóri en aðallega því ég hafði ekki nokkurn áhuga á að hlaupa frá þeim fjölmörgu ókláruðu verkefnum sem ég bar ábyrgð á og vildi sjá til lykta leidd. Niðurstaðan varð því ofangreind. Ég mun íhuga alvarlega að taka málið lengra og skoða réttarstöðu mína,“ segir Þorgeir.

Hann segir að hann og sveitarstjórnina hafi greint á í vissum málum, til að mynda í málum sem snúa að hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna, óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns og eigna sveitarfélagsins. Honum hafi fundist ákvarðanir stangast á við sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar.  

„Ég hef gagnrýnt sveitarstjórn þegar mér hefur þótt hún hafa farið á skjön við m.a. þessa grein. Ég hef haft skoðanir á ákvörðunum og embættisfærslum sem varða fjármuni og eignir sveitarfélagsins. Það er mitt hlutverk og mín skylda, um það á kjörnum fulltrúum að vera kunnugt. Gagnrýni mín á styrkveitingum til stofnanna sem tengjast einstaka sveitarstjórnarfulltrúum kemur til  bæði vegna hagsmunatengsla en líka og ekki síður vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Eðli máls samkvæmt eiga heildarhagsmunir sveitarfélagsins alltaf að koma framar sérhagsmunum. Að mínu viti hefur sveitarfélagið Strandabyggð ekki efni á að veita neina styrki árið 2021. Sveitarstjórn var á öðru máli,“ segir Þorgeir í yfirlýsingunni. 

Þá hafi honum verið vikið úr starfshópum í tengslum við verkefni sveitarfélagsins vegna skoðana sinna. Líkt og greint var frá í lok mars þurfti ríkið að hlaupa undir bagga með Strandabyggð svo að það geti haldið úti rekstri og staðið við skuldbindingar sínar. Oddviti sveitarstjórnar Strandabyggðar sagði það koma til vegna skerta framlaga úr Jöfnunarsjóði.

Í samkomulaginu felst að sveitarfélagið fái 30 milljónir króna úr Jöfnunarsjóði til að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. 

„Hafi einhver tengt brottrekstur minn við fjárhagslega stöðu Strandabyggðar, skal það leiðrétt hér með, því þar er engin tenging. Þvert á móti hefur starfsmönnum skrifstofu sveitarfélagsins ítrekað verið hrósað af einstaklingum í stjórnsýslu, ráðgjöf og stoðgreinum sveitarfélagsins fyrir það þor, að hafa kallað strax í júlí í fyrra eftir aðstoð ráðherra og ráðuneytis samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ég beitti mér ákveðið í þessu máli, leiddi okkar samskipti við ráðuneytið og þeirra sérfræðinga. Samningurinn kveður á um fjárhagslegan stuðning upp á 30 milljónir, en á móti setti ráðuneytið fram kröfur um fjárhagslega greiningu af hálfu sveitarfélagsins. Einnig átti sveitarfélagið að ráða óháðan ráðgjafa til að vinna fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2022-2025 auk þess að gera verk- og aðgerðaráætlanir.  Ég var mjög fylgjandi þessu ákvæði, þar sem ég tel það verulegt tækifæri fyrir Strandabyggð á þessum tímamótum að ná þessum samningi, fá svona ráðgjöf og geta þannig kafað ofan í forsendur fjárhagslegra ákvarðana sveitarstjórnar, meðal annars. Innan sveitarstjórnar var hins vegar ríkjandi það sjónarmið að það væri illt að þurfa að greiða fyrir þessa ráðgjöf af samningsupphæðinni. Í mínum huga var ekki um annað að ræða,“ segir Þorgeir. 

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér. Vakin er athygli á því neðst í henni að hún hafi verið birt á vef Strandabyggðar í gærkvöld, en síðar fjarlægð.