17 smit og 8 utan sóttkvíar - Ísland ekki lengur grænt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sautján kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og af þeim voru átta ekki í sóttkví. Sex greindust á landamærunum. Ísland er ekki lengur grænt á litakóðunarkorti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag. Ísland er nú skráð appelsínugult, en mið er tekið af smitum sem greinast innanlands og á landamærum. 

Alls voru tekin 1.923 sýni innanlands í gær. Til þess að teljast grænt þarf nýgengi smita að vera undir 25 á hverja 100 þúsund íbúa. Nýgengi innanlandssmita er nú 29,2 en var 25,6 í gær.

Átta greindust einnig utan sóttkvíar á laugardag, og var það þá í fyrsta sinn frá því í nóvember sem svo margir greinast utan sóttkvíar.

Sex smit greindust á landamærunum, þar af bíða fimm mótefnamælingar. 224 sýni voru tekin á landamærunum.Nýgengi landamærasmita er 5,2.

Ýmis ríki í Evrópu taka mið af litakóðunarkerfinu í landamæraaðgerðum. Ekkert ríki í Evrópu er nú grænt, en norðurhluti Noregs og Finnlands eru þó skráð græn.