Vilja fulltrúa af landsbyggð í allar opinberar nefndir

Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Sveitarstjórnarfólk á norðausturhorninu vill að tekin verði upp sú regla að í öllum nefndum og ráðum á vegum ríkisins sitji ákveðið hlutfall fulltrúa af landsbyggðinni. Taka þurfi ákvarðanir á breiðari grunni en nú er gert.

Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni og fleiri hafa lengi talað um byggðaójafnvægi og ósanngjarna valddreifingu meðal íbúa landsins. Þessu vilja Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra nú breyta.

Minnst þriðjungur verði búsettur utan höfuðborgarinnar

Á ársþingi SSNE á dögunum var samþykkt tillaga um að í nýrri byggðaáætlun verði sú meginregla að minnst þriðjungur þeirra sem skipi stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa á vegum ríkisins séu búsettir utan höfuðborgarsvæðisins.

Verið sé að taka ákvarðanir sem eigi við um landið allt

Hilda Jana Gísladóttir, formaður SSNE, segir að þetta þurfi ekki að vera flókið. Þetta sé ákvörðun um að dreifa valdinu og snúist í raun um vilja þeirra sem skipi í þessar nefndir og ráð. „Og að það skipti máli að það séu ekki einvörðungu, eða að stóru leyti, íbúar höfuðborgarsvæðisins sem taki ákvörðun um allt það sem á við um landið og stefnu þess. Okkar veruleiki er aðeins annar en veruleiki íbúa höfuðborgarsvæðisins. Fólk með þann veruleika þarf að taka þátt í samfélagsumræðunni og eiga sæti við borðið.“

Megi nýta reynsluna af jafnréttisbaráttu kynjanna

Og hún segist meðal annars horfa til jafnréttisbaráttu kynjanna í þessu tilfelli. Þar hafi með lögum og reglum og umræðu tekist að jafa aðstöðumun og reynslan af þeirri baráttu geti nýst til að skapa byggðajafnvægi. „Vegna þess að við viljum jú bæði hafa sterka höfuðborg og sterkar landsbyggðir.“

„Tæknin er fyrir hendi, það þarf bara viljann og ákvörðunina“

Og það eigi ekki lengur við að það sé of flókið, þungt í vöfum og dýrt að nýta starfskrafta af landinu öllu. „Covid hefur kennt okkur að þetta er fyrirsláttur. Tæknin er fyrir hendi, það þarf bara viljann og ákvörðunina,“ segir Hilda Jana.