Sveitarstjóra Strandabyggðar sagt upp

21.04.2021 - 07:42
Hólmavík. Strandir. Loftmynd tekin með dróna
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sagt Þorgeiri Pálssyni sveitarstjóra upp störfum. Í yfirlýsingu sveitarstjórnar segir að ástæðan sé ólík sýn sveitarstjórans og sveitarstjórnar á stjórnun og málefni sveitarfélagsins. Vegna þessa liggi leiðir þeirra ekki lengur saman og samstaða hafi verið í sveitarstjórn um að segja Þorgeiri upp störfum. Hann hefur þegar látið af störfum og vinnur því ekki út þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn.

Sveitarstjórn segist ætla að taka sér nokkra daga til að ákveða næstu skref en að í millitíðinni taki skrifstofa Strandabyggðar við erindum og málum auk þess sem sveitarstjórn verði starfsfólki innan handar við úrlausn mála. Þá er Þorgeiri þakkað fyrir samstarfið og honum óskað velfarnaðar.

Ríkið þurfti í síðasta mánuði að hlaupa undir bagga með Strandabyggð svo að sveitarfélagið geti staðið við skuldbindingar sínar og haldið úti rekstri. Jón Gísli Jónsson, oddviti sveitarstjórnar, skýrði bága stöðu sveitarfélagsins með því að skert framlög úr jöfnunarsjóði hefðu komið illa við fjárhag Strandabyggðar. Samgönguráðherra og sveitarstjórn undirrituðu 30. mars samkomulag um aðstoð ríkisins. Ríkið veitir sveitarfélaginu 30 milljónir úr jöfnunarsjóði svo að jafnvægi náist í rekstri Strandabyggðar. Þá var einnig ákveðið að óháður ráðgjafi yrði ráðinn til að vinna með sveitarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins og að hagrætt yrði í rekstri og dregið úr útgjöldum.