Skjálftinn í gærkvöldi eðlileg eftirskjálftavirkni

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jarðskjálfti upp á 4,1 á Reykjanesskaga í gærkvöldi er ekki merki um að ný gosrás sé að myndast. Þetta segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum.

Eftir nokkurra vikna hvíld frá jarðhræringum fengu landsmenn áminningu upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi þegar jarðskjálfti upp á 4,1 reið yfir með upptök miðja vegu milli Fagradalsfjalls og Grindavíkur, skammt vestan við eldstöðina. Á þessum slóðum hafa síðustu tvo sólarhringa mælst um 12 skjálftar stærri en tveir. Þá var um tíma í gær talið að nýr gígur væri að myndast í eldstöðinni. 

„Nei, þetta er talin eðlileg eftirskjálftavirkni eftir þá atburði sem hafa verið á þessu svæði undanfarna mánuði og ágætt að horfa til þess að þessi skjálfti er ekkert sérstaklega stór, þeir voru 70 yfir fjórum í aðdraganda eldgossins. En þetta er óneitanlega óþægilegt fyrir Grindvíkinga sem upplifðu stóru skjálftana en við lítum ekki á þetta sem fyrirboða um breytingar,“ segir Björn.

Hann segir að í hvert skipti sem skjálftar verða séu þeir skoðaðir með tilliti til aðlögunargagna og sögunnar. „Þannig að við erum með stækkunargler á þessu svæði og skoðum öll svona merki mjög vel.“ 

En það geta haldið áfram að myndast ný gosop á þessum stubbi á þessari löngu gosrásarlínu?

„Já, já, það höfum við séð síðustu daga og vikur. Í mörgum tilvikum eru þetta lítil op sem myndast utan í gígum sem nú þegar eru að gjósa þannig að þetta breytir lítið hættumatinu á svæðinu,“ segir Björn.