Ofurdeildin endanlega úti

epa09143729 Atletico Madrid' midfielder Marcos Llorente (2-L) celebrates with teammates after scoring the 4-0 goal during the Spanish LaLiga soccer match between Atletico Madrid and SD Eibar held at Wanda Metropolitano stadium in Madrid, central Spain, 18 April 2021.  EPA-EFE/Rodrigo Jimenez
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Ofurdeildin endanlega úti

21.04.2021 - 11:21
Tvö lið til viðbótar hafa dregið sig út úr fyrirhugaðri Ofurdeild Evrópu í fótbolta. Eftir standa fjögur lið eftir að Inter Mílanó og Atletico Madrid hættu við.

Öll sex ensku liðin í deildinni drógu sig út í gærkvöldi í kjölfar mikillar óánægju með áformin. Manchester City, Manchester United, Liverpool, Chelsea, Arsenal og Tottenham hættu öll við. 

Í morgun bættist svo fyrsta spænska liðið í hópinn þegar Atletico Madrid hætti við. 

„Atletico de Madrid ákvað á mánudag að vera með í verkefninu undir kringumstæðum sem ekki eru lengur fyrir hendi. Fyrir félagið er samhljómur allra þeirra hópa sem mynda hina rauðu og hvítu fjölskyldu aðalatriðið,“ segir í yfirlýsingu liðsins.

Nú undir hádegið bættist svo Inter Mílanó í hópinn. 

Eftir standa nú aðeins Juventus og AC Milan frá Ítalíu og Real Madrid og Barcelona frá Spáni. Forseti Juventus, Andrea Agnelli, viðurkenndi í samtali við fréttaveitu Reuters að deildin sé úr sögunni.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er það ekki raunin. Ég held ekki að verkefnið sé enn á lífi,“ sagði Agnelli.

Uppfært kl. 12:35

Nú er hreyfing á Ítalíu.

AC Milan hefur nú líka dregið sig út úr deildinni. Í stuttri yfirlýsingu á vef félagsins kemur fram að félagið hafi gengið til liðs við deildina með gott eitt að leiðarljósi og að þróun sé nauðsynleg til framfara. Hins vegar hafi raddir og áhyggjur stuðningsfólks verið skýrar og á það þurfi að hlusta.

Yfirlýsing Juventus er öllu óljósari. Tórínóliðið segir á sinni heimasíðu að í samhengi þess að mörg lið hafi hætt við þátttöku í Ofurdeildinni, sé erfitt að sjá að deildin geti haldið áfram í þeirri mynd sem upphaflega var fyrirséð.

Tekið er fram að ekki hafi verið gengið frá formsatriðum varðandi útgöngu annarra liða, en það ekki skýrt nánar.