Loka veginum um Kerlingafjörð vegna grjóthruns

21.04.2021 - 23:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Lögreglan á Vestfjörðum hefur lokað veginum um Kerlingafjörð á sunnanverðum Vestfjörðum vegna grjóthruns sem varð þar í kvöld. Vegagerðin er á leiðinni á staðinn til að meta aðstæður varðandi framhaldið.

Litlanesfjall stendur við vestanverðan Kerlingafjörð og Vestfjarðarvegur liggur svo yfir Mjóafjörð innst í firðinum. Grjót hefur hrunið úr hlíðum fjallsins og lent á veginum.  Lögreglan á Vestfjörðum sendi frá sér tilkynningu um lokunina nú í kvöld. Á vef Vegagerðarinnar er lokunin einnig merkt á korti og sagt að gríðarstórir grjóthnullungar loki veginum. 

Kerlingafjörður er austan við Kjálkafjörð og vestan hans er Vatnsfjörður sem Brjánslækur stendur við. Þangað siglir Breiðafjarðarferjan Baldur alla jafna. 

Greiðfært er á öðrum leiðum á landinu, þó er vetrarfærð á nokkrum leiðum á Vestfjörðum. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV