Lögreglumaður skaut sextán ára stúlku til bana

21.04.2021 - 10:01
Mynd: AP / AP
Lögreglumaður í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum skaut sextán ára stúlku til bana í borginni í gær eftir að hún hafði veist að tveimur öðrum með hnífi. Lögreglumaðurinn var sendur í leyfi frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur.

Lögregla var kölluð til vegna slagsmála fyrir utan miðstöð barnaverndar í Columbus síðdegis í gær. Að sögn lögreglu var óskað eftir aðstoð vegna konu sem hefði reynt að stinga tvær aðrar með hnífi. Bandarískir fjölmiðlar segja að búkmyndavélar lögreglumanna styðji frásögn lögreglu en þær sýni að stúlkan sé vopnuð. Andrew Ginther, borgarstjóri Columbus, sagði á fréttamannafundi í gær að lögreglumaðurinn hefði brugðist svona við til að vernda unga stúlku í samfélaginu. 

Fjöldi fólks kom saman í gærkvöld, skammt frá þeim stað sem stúlkan var skotin. Margir kölluðu slagorð sem heyrðust síðastliðið sumar, eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanninum Derek Chauvin. Chauvin var í gær dæmdur sekur í öllum þremur ákæruatriðum. Hann var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald og verður í fangelsi þar til dómari hefur ákveðið refsingu yfir honum. Dómurinn er sögulegur því þetta er í fyrsta skipti í sögu Minnesota sem lögreglumaður er sakfelldur vegna andláts blökkumanns í haldi lögreglu. Ben Crump, lögmaður Floyd fjölskyldunnar, sagði í gærkvöld að á sama tíma og fjölskyldan andaði léttar bærust fréttir af enn einu atvikinu þar sem lögreglumenn bana blökkufólki. 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV