Íslendingar fá bóluefni frá Noregi

21.04.2021 - 10:29
epa09106549 (FILE) A vial of the Oxford-AstraZeneca COVID-19 vaccine during a vaccination campaign in Riga, Latvia, 11 February 2021 (reissued 30 March 2021). The German city-state of Berlin is suspending the use of the AstraZeneca coronavirus vaccine for people under the age of 60 after reports of blood clot cases, Health Senator Dilek Kalayci said 30 March 2021.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íslensk og norsk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um að Íslendingar fái 16 þúsund skammta af bóluefni Astra Zeneca að láni hjá Norðmönnum. Norska lýðheilsustofnunin mælti í síðustu viku með því að hætt yrði að nota bóluefnið í Noregi. Hér hefur verið miðað við að bóluefni Astra Zeneca sé notað til að bólusetja fólk yfir 60 ára aldri.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu má gera ráð fyrir að bólefnið berist hingað til lands um helgina og fari í drefingu í næstu viku. Til stendur að uppfæra afhendingaráætlun og bólusetningardagatal eftir helgi.

Styr hefur staðið um Astra Zeneca vegna blóðtappa sem greinst hefur í fólki eftir að það hefur verið bólusett með bóluefninu. Lyfjastofnun Evrópu hefur rannsakað möguleg tengsl bólusetningarinnar og blóðtappa. Hún telur að hugsanleg tengsl séu milli bólusetningar með bóluefni Astra Zeneca og mjög sjaldgæfra tilfella blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað. Lyfjastofnun Evrópu hefur þó metið ávinning af notkun bóluefnisins meiri en áhættuna sem því fylgir.

Dönsk stjórnvöld ákváðu fyrir viku að hætta alfarið að nota bóluefni frá Astra Zeneca.