Íbúðaverð hækkaði um 1,6% milli mánaða

21.04.2021 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,6% milli febrúar og mars. Það er mesta hækkun sem sést hefur milli mánaða síðan í maí 2017 samkvæmt Hagsjá Landsbankans. Fjöldi undirritaðra kaupsamninga í mánuði er nú svipaður og 2007 og fjórðungur eigna selst yfir ásettu verði.

Verð á fjölbýli hækkaði um 1,46% og verð á sérbýli hækkaði um 1,54%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 8,9% og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar 2018.

Fjórðungur selst yfir ásettu verði

Hagfræðideild Landsbankans nemur að fjórðungur íbúða í fjölbýli á höfuðbograrsvæðinu seljist yfir ásettu verði og 28% sérbýlis.  Til samanburðar var þetta hlutfall 13% á sérbýli fyrir ári síðan og 11% á fjölbýli. Síðast þegar svo hátt hlutfall seldist yfir ásettu verði voru sömuleiðis miklar hækkanir á íbúðaverði. 

Í mars var 971 kaupsamningur undirritaður samkvæmt bráðabirgðatölum frá Þjóðskrá en þeir voru til samanburðar 620 talsins í mars í fyrra og 633 í mars árið 2019.  Fjöldi undirritaðra kaupsamninga í hverjum mánuði hefur aukist um allt að 57% milli ára og er nú er orðið svipaður því sem sást síðast árið 2007. Sölutími er því styttri og minna í sölu hverju sinni.

Leiða má líkur að því að þessa miklu eftirspurn megi rekja til lágra vaxta og takmarkaðra tækifæra til neyslu vegna kórónuveirufaraldursins, segir í hagsjánni.

„Seljendamarkaðurinn er búinn að vera óvenjulangur, það er rosalega mikill hraði og mars 2021 var stærsti einstaki mánuðurinn minn frá upphafi,“ sagði Ásdís Ósk Valsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Húsaskjóli við fréttastofu á dögunum. Hún segir að áhrif  faraldursins skýri aukna ásókn í sérbýli. „Fólk vill meira pláss, garð og aukaherbergi fyrir heimaskrifstofuna.“