Fréttir: Stefnt á að frumvarpið verði að lögum í kvöld

21.04.2021 - 18:48
Ríkisstjórnin var sökuð um að ala á upplýsingaóreiðu í umræðum um nýtt sóttvarnafrumvarp á þingi í dag. Þingfundi hefur verið frestað til hálftíu og enn er stefnt að því að frumvarpið verði að lögum í kvöld eða nótt.

Fagnaðarlæti brutust út víða um Bandaríkin í gær þegar Derek Chauvin var sakfelldur fyrir að myrða George Floyd. Dómsmálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á starfsháttum lögreglu. 

Þeir sem ógna öryggishagsmunum Rússlands munu sjá eftir því lengi, sagði forseti Rússlands í ávarpi í dag. Fjöldi manns hefur mótmælt fangavist stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny.

Ákveðið hlutfall fulltrúa af landsbyggðinni þarf í allar stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkisins ef skapa á alvöru byggðajafnvægi, að mati sveitarstjórnarfólks á Norðausturlandi.

Hálf öld er nú liðin frá því að Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða voru afhentar Íslendingum að nýju eftir aldadvöl í Danmörku. Í dag var síðan lagður hornsteinn að Húsi íslenskunnar sem hýsa mun þessa dýrgripi og marga fleiri.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV