Fréttir: Ekki ástæða til að herða aðgerðir

21.04.2021 - 11:51
Tólf greindust með COVID-19 hér á landi í gær, þar af voru tíu í sóttkví. Sóttvarnalæknir telur ekki ástæðu til að herða aðgerðir að svo stöddu.

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum, gagnrýnir séríslenskt litakóðunarkerfi sem stjórnvöld vilja koma á á landamærunum 1. júní. Hann hefði viljað að sóttvarnalæknir fengi rýmri heimildir til að skylda fólk í sóttkvíarhús. 

Fjögur þúsund manns verða bólusett á höfuðborgarsvæðinu í dag. Að Íslendingum frátöldum eru flestir komufarþegar með pólskt ríkisfang. Pólverjar eru líka með hæst hlutfall smita í skimunum á landamærunum. 

Fjöldi undirritaðra kaupsamninga í hverjum mánuði er orðinn svipaður því sem sást síðast árið 2007. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki hækkað jafn mikið milli mánaða síðan 2017. 

Pútín Rússlandsforseti varaði Bandaríkin við því að ganga á rétt Rússa, í árlegu ávarpi sínu til rússnesku þjóðarinnar í dag. Bandarísk stjórnvöld hafa hótað refsiaðgerðum vegna hernaðar Rússa í Úkraínu og meðferðar á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Stuðningsmenn Navalnís hafa boðað mótmæli um allt Rússland í dag. 

Fyrirhuguð Ofurdeild Evrópu í fótbolta virðist vera úr sögunni. Af tólf stofnliðum deildarinnar standa nú aðeins fjögur eftir í kjölfar mikilla mótmæla við áformunum
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV