Bandaríski tónsmiðurinn Jim Steinman látinn

Mynd með færslu
 Mynd: Ben Miller - Flickr.com

Bandaríski tónsmiðurinn Jim Steinman látinn

21.04.2021 - 03:53

Höfundar

Tónskáldið og upptökustjórinn Jim Steinman er látinn, 73 ára að aldri. Fréttastofa BBC hefur eftir Bill, bróður hans, að dánarorsökin væri nýrnabilun.

Steinman er líklega hvað þekktastur fyrir stórvirkið Bat Out Of Hell frá árinu 1977 sem hann samdi ásamt tónlistarmanninum Meat Loaf. Platan er ein sú söluhæsta í sögunni, en alls hafa yfir 50 milljónir eintaka selst á heimsvísu.

Þeir Steinman og Meat Loaf unnu aftur saman að framhaldi plötunnar sem kom út árið 1993. Meðal laga á henni var I'd Do Anything For Love (But I Won't Do That), sem náði fyrsta sæti á metsölulistum víða um heim. Bat Out Of Hell þríleiknum var svo lokað með söngleik árið 2017, þar sem Steinman samdi öll lögin.

Steinman vann einnig með Celine Dion og Andrew Lloyd Webber svo einhverjir séu nefndir. Hann hlaut Grammy-verðlaun fyrir störf sín við plötuna Falling Into You með Celine Dion. Hann samdi jafnframt lagið It's All Coming Back To Me Now sem Dion söng á þeirri plötu. Steinman samdi einnig lög á borð við Total Eclipse of the Heart og Holding Out for a Hero, sem Bonnie Tyler gerði frægt með flutningi sínum.

Sjálfur sagði Steinman í útvarpsviðtali árið 2017 að Total Eclipse of the Heart væri líklega hans besta lag. Það væri eitthvað alstærsta karaoke-lag heimsins, og fjöldi listamanna hafi tekið það upp á sína arma. Hann sagðist þó eiga erfitt með að gera upp á milli laganna sinna, en þetta lag væri vissulega sérstakt. 

Tyler sagði í viðtali við Rolling Stone tímaritið í gær að hún væri harmi slegin yfir tíðindunum af andláti Steinmans. Utan tónlistarinnar hafi hann verið fyndinn, hugulsamur og kærleiksríkur maður. „Heimurinn er betri staður vegna hans og starfa hans, og verri staður eftir að hann lést,“ er haft eftir Tyler í Rolling Stone.