Um 69 prósent færri gistinætur en í fyrra

20.04.2021 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Áætlaðar gistinætur á hótelum í síðasta mánuði voru um 54 þúsund. Það er fækkun um 69 prósent samanborið við mars í fyrra þegar gistinætur voru rúmlega 174 þúsund. Þetta kemur fram í nýjum skammtímahagvísi Hagstofu Íslands fyrir ferðaþjónustuna.

Gistinætur Íslendinga jukust hins vegar um 107 prósent á milli ára og voru 41.800. Gistinóttum erlendra gesta fækkaði um 92 prósent og voru 12.600.

Velta í ferðaþjónustugreinum á Íslandi var 27,4 millarðar króna í janúar til febrúar samkvæmt virðisaukaskattskýrslum og dróst saman um 63 prósent frá því í fyrra þegar hún nam 74 milljörðum.

Í mars voru 7.729 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli sem er 92 prósent fækkun samanborið við mars í fyrra þegar brottfarir frá landinu voru um 95.000. Brottförum gesta með erlent ríkisfang fækkaði um 94 prósent og Íslendinga um 80 prósent.

Seðlabankinn hefur gefið það út að hann óttist að greiðsluvandi ferðaþjónustufyrirtækja breytist í skuldavanda nú þegar hillir undir lok kórónuveirufaraldursins og fyrirtæki þurfa að byrja að borga af lánum sínum á ný. Þá var of mikil áhersla á ferðaþjónustu einn helsti veikleiki Íslands þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.