Um 62 prósent landsmanna vildu sóttkvíarhótelskyldu

20.04.2021 - 09:13
Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Rúmlega 62 prósent landsmanna hefðu viljað að farþegar sem kæmu til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum yrði gert að vera í sóttkví undir eftirliti á sóttvarnahóteli og að gerð hefði verið breyting á sóttvarnalögum sem heimilaði slíka kvöð. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Ríflega 34 prósent þeirra sem tóku afstöðu í netkönnuninni sem gerð var 9. til 19. apríl eru hins vegar sátt við reglugerð heilbrigðisráðherra sem felur í sér að komufarþegar sem eiga að fara í sóttkví geti verið í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tæplega fjögur prósent hefðu kosið að komufarþegar hefðu fengið að ráða hvar þeir væru í sóttkví án þess að reglur um heimasóttkví væru hertar.

Með reglum sem tóku gildi 1. apríl var farþegum sem komu til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum gert að dvelja í sóttkví undir eftirliti á sóttvarnahóteli. Héraðsdómur kvað hins vegar stuttu síðar upp þann úrskurð að ekki væri lagaheimild fyrir reglunum og tók ný reglugerð heilbrigðisráðherra gildi 9. apríl.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að ekki sé marktækur munur á svörum fólks eftir kyni, aldri, búsetu, menntun eða tekjum en að töluverður munur sé á svörum  eftir því hvaða flokk það kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag. Tæplega 46 prósent Sjálfstæðismanna vilja að komufarþegar frá hááhættusvæðum sé gert að vera í sóttkví á sóttvarnahóteli á meðan um 61 til 73 prósent þeirra sem kysu aðra flokka vilja það. 

Þá eru um 49 prósent Sjálfstæðismanna sátt við reglugerð sem heimilar komufarþegum að vera í sóttkví í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum á meðan þeir sem kysu aðra flokka eru ólíklegri til að vera sáttir við hana. Tæplega 16 prósent þeirra sem kysu Miðflokkinn eru sátt við reglugerðina og 24 prósent þeirra sem kysu Framsóknarflokkinn, en um 30 til 38 prósent þeirra sem kysu aðra flokka.

Framsóknar- og Miðflokksfólk er líklegast til að styðja sóttkvíarhótelskyldu, eða um 71 prósent kjósenda Miðflokksins og 73 prósent kjósenda Framsóknar.

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup

Ríkisstjórnin ræðir á fundi sínum í dag mögulegar útfærslur á lagafrumvarpi um hvernig tryggja megi lagastoð fyrir þeirri aðgerð að skikka fólk í sóttkví í sóttkvíarhúsi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er mögulegt að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þess efnis.