Lögregluvernd í 30 ár vegna rannsókna á mafíum

Mynd: EPA / EPA
Saksóknari á Ítalíu hefur óttast um líf sitt síðan hann byrjaði að rannsaka glæpi hinnar harðsvíruðu Ndrangheta mafíu. Réttarhöld standa nú yfir og eru ein þau umfangsmestu í sögu landsins.

Ndrangheta mafían er umsvifamikil í Kalibría-héraði á Suður-Ítalíu og ber samfélagið þess merki. Nicola Gratteri, saksóknarinn sem leiðir réttarhöldin ólst einmitt þar upp. „Ég fór á puttanum í skólann og sá marga dána á götunum. Mafíumeðlimir stóðu vaktir fyrir utan skólann. Um ævina hef ég orðið vitni að drápum á skólafélögum mínum og sjálfur hef ég rannsakað glæpi þeirra og eða gefið út handtökuskipun á þá,“ segir Gratteri. 

450 sakborningar

Réttarhöldin eru ein þau umfangsmestu í sögu Ítalíu og er búist við að þau taki nokkur ár. Sakborningarnir eru um 450 talsins og vitnin yfir 900. Ndrangheta er talin stærsta mafían á Ítalíu og meðal þeirra glæpa sem mafíósarnir eru grunaðir um er peningaþvætti á milljónum evra og skipulagning á stórum hluta kókaíninnflutnings til Evrópu. 

„Um fimmtíu vitni sem áður voru í mafíunni vinna nú með yfirvöldum og þetta er fyrsta skiptið að Nrangheta meðlimir gera það. Það hafa ætíð virt þagmælskuna,“ segir saksóknarinn. 

Áratugir síðan saksóknarinn fór út að borða

Gratteri hefur helgað starfsævina því að uppræta mafíur og hefur þurft að reiða sig á öryggisgæslu síðustu þrjátíu árin. Í öðrum réttarhöldum gegn mafíunni á Sikiley voru tveir saksóknarar ráðnir af dögum. „Ég hef ekkert rými út af fyrir mig. Þegar ég fer af skrifstofunni, fer ég út í bíl og aftur heim. Ég á mér ekkert líf. Það eru áratugir síðan ég fór út að borða eða í bíó.“