Laschet er kanslaraefni kristilegra demókrata

epa09144981 Democratic Union (CDU) party chairman Armin Laschet speaks in front of the CDU headquarters in Berlin, Germany, 19 April 2021. CDU and CSU sister parties are trying to find a candidate for chancellorship. The choice is to be made between Christian Democratic Union (CDU) party chairman Armin Laschet and State Premier of Bavaria and Christian Social Union (CSU) chairman Markus Soeder.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Armin Laschet verður kanslaraefni Kristilegra demókrata í Þýskalandi í kosningunum í haust. Þetta var niðurstaða atkvæðageiðslu miðstjórnar flokksins eftir ríflega sex klukkustunda maraþonfund í dag. Laschet hlaut þar 31 atkvæði en helsti keppinautur hans um stöðuna, Markus Söder, aðeins níu, en sex sátu hjá.

Þar með vonast kristilegir demókratar til þess að langri og nokkuð harðri valdabaráttu innan flokksins sé lokið og hann gengið sameinaður til verka í kosningabaráttunni framundan.

Vildu að fleiri fengju að kjósa

Ekki er þó gulltryggt að svo verði, því ekki voru allir flokksmenn sáttir við að láta tiltölulega fámenna miðstjórn flokksins um að taka þessa mikilvægu ákvörðun. Voru bæði uppi raddir um að þingflokkurinn ætti að velja kanslaraefni flokksins, þar sem Söder er sagður eiga meiri stuðning vísan en í miðstjórninni, og um hitt, að best færi á því að almennir flokksfélagar fengju að kjósa milli kanslaraefna. Hvort tveggja þótti líklegra til að skapa breiða sátt um kanslaraefni flokksins en að láta miðstjórnina eina ráða valinu. 

Vildi forðast endurtekna umræðu í þingflokknum

Í frétt Spiegel segir að Laschet hafi ekki verið fráhverfur síðarnefnda kostinum, en ákveðið að knýja fram niðurstöðu í miðstjórninni í kvöld samt sem áður. Ástæðan er sú, segir Spiegel, að á þriðjudag kemur þingflokkurinn aftur saman og þá hefði „kanslaraspurningin“ óhjákvæmilega verið tekin til umræðu á þeim vettvangi á ný.

Laschet er formaður CDU, sem er flokkur kristilegra demókrata í öllum þýsku sambandsríkjunum nema Bæjaralandi. Þar er Söder forsætisráðherra og formaður CSU, sem er systurflokkur CDU í Bæjaralandi, en flokkarnir ganga jafnan sameinaðir til kosningabaráttunnar á landsvísu. Báðir buðust þeir til að taka við keflinu af Angelu Merkel, sem lætur af kanslaraembættinu í haust eftir að hafa gegnt því í 16 ár samfleytt.