Geta og þekking verður að vera til í glímu við faraldra

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Íslensk erfðagreining byrjaði í gær að boða fólk í handahófsskimanir vegna hópsýkinganna sem nú hafa komið upp.

Íslensk erfðagreining stóð í gær fyrir fræðslufundi þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknar á langtímaáhrifum COVID-19 sjúkdómsins. Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, dró saman í lokin hvaða lærdóm mætti draga af rannsóknum í baráttunni við faraldurinn. 

Kári segir í samtali við fréttastofu að óvíst sé hversu lengi hans fyrirtæki verður til staðar, þess vegna hafi hann talað fyrir Farsóttastofnun. Geta og þekking verði að vera til staðar í samfélaginu til framtíðar til að takast á við faraldur eins og kórónuveirufaraldurinn. 

Fyrir nokkrum mánuðum var greint frá því að Kári hygðist stofna Farsóttastofnun Íslands. Hann ætli að leggja stofnuninni til fjármagn, tryggja henni tækjakost og aðgang að færustu vísindamönnum heims. 

„Mjög erfitt hefði verið að höndla þennan faraldur á Íslandi, án þess að hafa svona aðstöðu,“ segir Kári Stefánsson. Hann sagði við móttöku UT-verðlaunanna í febrúar að starfsemi fyrirtækisins undanfarin aldarfjórðung hafi verið einskonar æfing til að takast á við COVID-19.

Íslenskt samfélag hafi tekist á við faraldurinn með upplýstari hætti en annars staðar í heiminum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.