Díaz-Canel tók við flokksformennskunni af Raúl Castro

20.04.2021 - 04:07
epa09145943 Cuban President Miguel Diaz-Canel Bermudez (L), together with Army General Raul Castro Ruz (R), after his election as First Secretary of the Central Committee of the Communist Party of Cuba (CC PCC), during the Closing Session of the VIII Congress of the PCC, at the Palacio de Convenciones, in Havana, Cuba 19 April 2021. Cuban President Miguel Díaz-Canel announced on 19 April that he will continue to consult with Raul Castro on 'strategic decisions for the future of the nation' after replacing the 89-year-old general as first secretary of the Communist Party of Cuba (PCC).  EPA-EFE/ARIEL LEY ROYERO
 Mynd: EPA-EFE - ACN
Miguel Díaz-Canel, forseti Kúbu, var í gær kjörinn arftaki Raúls Castros sem formaður kúbanska Verkamannaflokksins. Díaz-Canel, sem tók við forsetaembættinu af Castro árið 2018, er þar með óumdeilanlega orðinn valdamesti maður Kúbu.

Tvöföld tímamót í sögu Kúbu

Flokksþing Kommúnistaflokksins hófst á föstudag með ávarpi Raúls Castros, þar sem hann tilkynnti afsögn sína. Sagðist hinn 89 ára gamli herforingi og byltingarleiðtogi ætla að fela völdin í hendur yngri kynslóðar, sem væri tilbúin að takast á við heimsvaldasinna heimsins „full ástríðu og baráttuanda."

Díaz-Canel stendur á sextugu og er því nær 30 árum yngri en forveri hans. Þegar hann  tók við flokksformennskunni af Castro í gær urðu tvöföld tímamót í sögu Kúbu. Annars vegar er þar nú enginn Castro formlega við völd lengur, í fyrsta sinn frá byltingunni 1959, eða í ríflega 60 ár. Hins vegar markar kjör hans upphaf borgaralegrar stjórnar í landinu, þar sem Díaz-Canel er ekki hershöfðingi, öfugt við þá Castrobræður Fidel og Raúl. 

Ekki búist við róttækum breytingum

Formaðurinn nýi hefur verið dyggur stuðningsmaður Castro-bræðra og einarður talsmaður ríkissósíalismans sem verið hefur við lýði í valdatíð þeirra, þótt hann hafi gert eilitlar tilslakanir og leyft takmarkaðan einkarekstur á nokkrum sviðum frá því hann tók við forsetaembættinu.

Ekki er búist við að Díaz-Canel beiti sér fyrir róttækum breytingum á stjórnarfari og efnahagskerfi landsins í nánustu framtíð. Will Grant, Kúbusérfræðingur breska ríkisútvarpsins BBC, telur þó að bágborið efnahagsástandið í eyríkinu gæti þvingað hann til frekari tilslakana fyrr en seinna.

Virkur í flokknum frá unga aldri

Díaz-Canel hóf snemma afskipti af stjórnmálum og tók virkan þátt í starfi ungra kommúnista í heimaborg sinni Santa Clara. Hann varð menntamálaráðherra 2009 og varaformaður ríkisráðsins 2013. Fimm árum síðar valdi Raúl Castro hann sem eftirmann sinn í forsetastól.

Sem forseti hefur Díaz-Canel viðhaldið góðum tengslum við hefðbundin vinaríki Kúbu, Norður Kóreu, Kína, Rússland, Bólivíu og Venesúela. Hann fagnaði kjöri Joes Bidens í fyrra.

Samskipti Kúbu og Bandaríkjanna versnuðu til muna í valdatíð Donalds Trumps, eftir að Barrack Obama hafði lagt sig fram um að bæta samskipti ríkjanna, einkum á seinna kjörtímabili sínu. Biden hefur aftur á móti ekki sýnt mikinn áhuga á að taka þann þráð upp að nýju, enn sem komið er.