Blaðamannafundur klukkan 16 um landamæraaðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ríkisstjórnin heldur blaðamannafund klukkan 16 í dag þar sem kynntar verða ráðstafanir á landamærunum. Formenn ríkisstjórnarflokkanna verða á fundinum. Fundurinn verður haldinn í Hörpu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá áformum um fjölmiðlakynningu að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu hér á vefnum. 

Ríkisstjórnin fundaði í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Þar ræddu ráðherrar drög að kynningu um ráðstafanir á landamærunum og innanlands til næstu mánaða auk flugs og nýtingar á sóttkvíarhóteli það sem af er apríl. Forsætisráðherra ræddi um sóttvarnareglur á landamærum við ríkisstjórn sína og velti upp valkostum varðandi lagabreytingar.

Tilkynning ríkisstjórnarinnar:

Ríkisstjórnin boðar til blaðamannafundar um ráðstafanir á landamærum í Hörpu í dag, þriðjudaginn 20. apríl kl. 16.00.

Fundurinn verður í Hörpuhorni, framan við Eldborg á 2. Hæð, og er 20 manna hámark. Hægt verður að fylgjast með útsendingu á ruv.is og visir.is á meðan á fundinum stendur.  

Boðið verður upp á spurningar úr sal og viðtöl að loknum fundi en fjölmiðlar eru beðnir um að hafa eins fáa á staðnum og mögulegt er.

Minnt er á sóttvarnaráðstafanir og fjarlægðarmörk og eru gestir vinsamlegast beðnir um að bera andlitsgrímu.

Reykjavík, 20. apríl 2021.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV